Hunsaði samúðarkveðju Erdogans

Serzh Sarkisian, forseti Armeníu.
Serzh Sarkisian, forseti Armeníu. AFP

Serzh Sarkisian, forseti Armeníu, hunsaði í gær fyrstu og einu samúðarkveðju stjórnvalda í Tyrklandi vegna fjöldamorða Tyrkja á Armenum í fyrri heimsstyrjöldinni, fyrir um hundrað árum síðan.

Á miðvikudaginn vottaði Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, Armenum samúð sína og sagði að atburðirnar árið 1915 hefðu verið hluti af „sameiginlegum sársauka“ þjóðanna beggja.

Tyrkir hafa hingað til lítið viljað minnast á fjöldamorðin, en þeir mótmæltu því hins vegar harðlega þegar morðunum var á sínum tíma lýst sem þjóðarmorði.

Sarkisan ákvað að minnast ekki á samúðarkveðju Erdogans þegar hann ávarpaði armönsku þjóðina í gær, en þá var þess minnst að 99 ár voru liðin frá fjöldamorðunum.

Vigen Sarkisan, starfsmannastjóri forsetans, gekk lengra, að því er segir í frétt AFP, og sagði að samúðarkveðjan hefði verið ætluð til þess eins að gera lítið úr glæpum Tyrkja.

Hann sagði að allir ættu nú að kannast við áróðursbrögð Tyrkja. Ekkert væri að marka kveðjuna.

Jen Psaki, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði hins vegar að samúðarkveðja Erdogans væri „söguleg yfirlýsing“. Þá hrósaði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, Erdogan jafnframt fyrir að stíga skrefið í fyrsta sinn og votta Armenum samúð sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert