Mamma Rósa sleppur við ákæru

Rosa Verduzco, mamma Rósa, á sjúkrahúsinu í San Jose eftir …
Rosa Verduzco, mamma Rósa, á sjúkrahúsinu í San Jose eftir handtökuna. AFP

Öldruð kona sem rak barnaheimili í Mexíkó þar sem börn í tugatali eru talin hafa verið misnotuð árum saman verður ekki ákærð. Læknar segja hana þjást af elliglöpum.

Saksóknarinn segir að Rosa Verduzco, mamma Rósa eins og hún er yfirleitt kölluð, verði ekki ákærð vegna veikinda hennar og aldurs.

Hins vegar hefur verið ákveðið að ákæra sex starfsmenn barnaheimilisins. Saksóknarinn segir að ásakanir á hendur mömmu Rósu séu þó „mjög alvarlegar“. Hún sé m.a. sökuð um að hafa barið börnin á heimilinu.

Lögreglan fór inn á heimilið sem kallast  La Gran Familia, eða Stórfjölskyldan, í bænum Zamora í síðustu viku. Húsleitin var gerð þar sem ábendingar bárust um að fimm börnum, sem hafði verið rænt, væri haldið þar.

Börnin fimm fundust en mörg önnur líka. Þar voru 400 börn og ungmenni og um 200 fullorðnir. Fólkið hélt til innan um rotnandi mat og rusl og sagði hryllilegar sögur af aðbúnaðinum. Það sagðist m.a. sofa með rottur og skordýr allt í kringum sig og börnin hefðu verið þvinguð til munnmaka.

Frá því að þetta átti sér stað hafa margir mikilsmetnir Mexíkóar komið Verduzco til varnar en hún stofnaði barnaheimilið fyrir sextíu árum. Meðal þeirra sem hafa varið hana opinberlega er fyrrverandi forseti landsins, Vicente Fox. Fjölmargir kröfðust þess einnig að starf mömmu Rósu í gegnum árin yrði metið að verðleikum.

Saksóknarinn Murillo Karam segir að embættið sé ekki að láta undan þrýstingi. Hann sagði heldur ekki koma til greina að opna heimilið á ný.

Verduzco var flutt á sjúkrahús eftir húsleit lögreglunnar. Hún glímir við margskonar heilsufarsvandamál, m.a. sykursýki. Á laugardag var svo ljóst að hún yrði ekki ákærð. Hún var í kjölfarið flutt á einkarekna sjúkrastöð þar sem henni verður sinnt.

Átta starfsmenn mömmu Rósu voru handteknir í húsleitinni. Tveimur var sleppt en hinir sex verða ákærðir.

Að minnsta kosti einn þeirra hefur játað að hafa beitt börnin kynferðislegu ofbeldi. Meðal þess sem er rannsakað er hvort börnin hafi verið sett í einangrun og fengið lítið sem ekkert að borða.

Fréttir mbl.is:

Ótti og ofbeldi á barnaheimili

450 börn beitt ofbeldi á barnaheimili

Mamma Rósa á barnaheimilinu. Margir hafa komið henni til varnar.
Mamma Rósa á barnaheimilinu. Margir hafa komið henni til varnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert