Norðmenn berjast enn gegn hatrinu

Jonas Gahr Støre, formaður norska Verkamannaflokksins (Arbeiderpartiet).
Jonas Gahr Støre, formaður norska Verkamannaflokksins (Arbeiderpartiet). AFP

„Hvern einasta dag lesum við og heyrum hatursáróður frá öfgaöflum í Noregi, gegn pólitískum andstæðingum þeirra og öðrum – múslímum, gyðingum, innflytjendum, samkynhneigðum, konum,“ sagði Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins í Noregi, við guðsþjónustu í Ósló í morgun í tilefni þess að 3 ár eru í dag frá fjöldamorðunum í Útey.

Það var ungliðahreyfing norska Verkamannaflokksins sem var við sumardvöl í Útey þegar Anders Behring Breivik gekk þar á land og hóf skothríð með þeim afleiðingum að 69 létu lífið. Sjö til viðbótar dóu í sprengjuárás Breiviks á stjórnarráðsbyggingarnar í miðborg Óslóar fyrr um daginn. Markmið Breiviks með voðaverkunum var að útrýma kynslóð framtíðarstjórnmálamanna sem stuðla myndu að frekari framgangi jafnaðarstefnu og fjölmenningarsamfélags í Noregi.

Hin sameiginlegu gildi ekki sjálfsögð

Minningarathafnirnar í dag hafa fengið einkennisorðin „Friður, framtíð og von.“ Dagurinn hófst með því að Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Støre lögðu í sameiningu blómkrans við stjórnarráðsbyggingarnar til minningar um fórnarlömbin. Annar blómkrans verður lagður á bryggjuna við Útey síðdegis í dag.

Á hádegi hófst síðan s.k. Vonarmessa í dómkirkjunni í Ósló, sem sótt var m.a. af Hákoni krónprins auk fulltrúa ríkisstjórnar og Stórþingsins. Biskupinn Trond Bakkevig spurði í predikun sinni á hvaða gildum Norðmenn vilji byggja framtíð sína og samfélagsins.

„Ódæðismaðurinn sýndi okkur það að sameiginleg gildi okkar eru ekki sjálfgefin. Hann var ekki utanaðkomandi í okkar landi, hann var einn af okkur,“ sagði biskupinn og spurði: „Sjáum við hatrið núna? Hvar heldur það sig?“

Tími fyrir sorg og fyrir uppgjör

Støre talaði á svipuðum nótum í ávarpi sínu við athöfnina og minnti á að allt hefði sinn tíma. „Þrjú ár eru yfir þúsund dagar. Okkur hefur lærst og við finnum að það er alltaf tími til að syrgja hin látnu eftir 22. júlí. En tíminn sem á eftir fylgir snýst líka um uppgjör. Dómskerfið hefur gert sitt uppgjör við ódæðismanninn með dómstólaleiðinni. Sem samfélag verðum við að fara lýðræðisleiðina í uppgjöri við þau viðhorf sem leiddu til atburðanna.“

Støre sagði að 22. júlí verði alltaf dagur þar sem Norðmenn muni slá skjaldborg um það sem ráðist var gegn með ódæðisverkunum, þ.e.a.s. fjölbreytileika þjóðarinnar. „Í okkar landi áttu að vera öruggur, í þinni trú, í þinni menningarlegu sjálfsvitund og með þinn uppruna. Þannig er Noregur.“

Hann sagði að í kjölfar 22. júlí 2011 hefði gengið í garð tími þar sem Norðmenn opnuðu dyrnar, bæði að kirkjum, moskum, sýnagógum og öðrum trúfélögum. Samfélagið hefði opnað dyrnar.

„Við opnuðum hvert fyrir öðru. Fyrir þremur árum, umkringd blómahafi, opnaði dómkirkjan í Ósló dyrnar fyrir þjóðinni. Í dag segjum við takk, fyrir opið og gott samfélag.“

Mættu hatri með kærleika

Samfélagsmiðlar bera þess merki að hugur Norðmanna er í Útey í dag. Þar minnast margir horfinna ástvina með myllumerkjunum #22juli #utøya og #oslove. Þá hafa margir rifjað upp og deilt ummælum ungliða í Verkamannaflokkum, þá 18 ára gamals, orðum sem hann lét falla á Twitter að kvöldi 22. júlí 2011 og slógu á vissan hátt tóninn fyrir viðbrögð norsku þjóðarinnar í eftirleik voðaverkanna.

Helle Gannestad, sem nú starfar sem blaðaljósmyndari, sagði þá: „Ef einn maður getur sýnt af sér svona mikla illsku, hugsið ykkur þá hve mikinn kærleik við getum skapað saman.“ Leiðtogar þjóðarinnar, bæði Jens Stoltenberg forsætisráðherra og Hákon krónprins, tóku í kjölfarið snemma þá stefnu að lýsa því yfir að Norðmenn ættu að mæta hatrinu með samstöðu og kærleika.

Útey á Óslófirði var paradís sem breyttist í helvíti 22. …
Útey á Óslófirði var paradís sem breyttist í helvíti 22. júlí 2011. AFP
Erna Solberg forsætisráðherra Noregs við minningarathöfn í morgun þar sem …
Erna Solberg forsætisráðherra Noregs við minningarathöfn í morgun þar sem blómkrans var lagður við stjórnarráðsbyggingarnar í Ósló þar sem sprengjan sprakk að morgni 22. júlí 2011. AFP
Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra og formaður Verkamannaflokksins, og Erna Solberg …
Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra og formaður Verkamannaflokksins, og Erna Solberg við minningarathöfn í morgun um sprengjuárásina í miðborg Ósló 22. júlí 2011. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert