Segjast aðeins hafa fengið 200 lík

Margir vottuðu hinum látnu virðingu sína á Schiphol flugvellinum í …
Margir vottuðu hinum látnu virðingu sína á Schiphol flugvellinum í Amsterdam Mynd/AFP

Sérfræðingar í Úkraínu hafa nú hafist handa við að bera kennsl á þá sem létust í flugvél Malaysia Airlines. Uppreisnarmennirnir samþykktu að senda lík hinna látnu til Karkív í dag, en fréttir berast nú af því að aðeins 200 lík af 282 hafi skilað sér. Aðeins verður framkvæmd frumathugun á hinum látnu í Karkív áður en flogið verður með þá aftur til Hollands á morgun, en þaðan kom vélin áður en hún var skotin niður. Þar munu sérfræðingar endanlega bera kennsl á hina látnu.

Flugvélin var skotin niður yfir yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Austur-Úkraínu á fimmtudaginn. Vestrænar þjóðir hafa haldið því fram að uppreisnarmennirnir hafi verið að verki með útbúnað frá Rússlandi. Rússnesk yfirvöld hins vegar halda því fram að úkraínsk yfirvöld hafi verið að verki.

Foringi uppreisnarmannanna, Alexander Borodai, segir að þeir hafi afhent öll líkin sem fundust við brak vélarinnar.

Svarti kassinn, sem inniheldur flugrita vélarinnar, er nú kominn til Bretlands þar sem innihald hans verður rannsakað gaumgæfilega. Ástæðan fyrir því að kassinn er sendur til Bretlands er að útbúnað til þess að ná upplýsingum úr kassanum er aðeins að finna á tveimur stöðum í Evrópu; Bretlandi og Frakklandi.

Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert