Skotið á skrifstofur al-Jazeera

Avigdor Lieberman utanríkisráðherra Ísraels.
Avigdor Lieberman utanríkisráðherra Ísraels. AFP

Starfsfólk fréttastofunnar al-Jazeera þurfti að flýja skrifstofur sínar á Gaza-svæðinu eftir að ísraelski herinn skaut á bygginguna fyrr í dag. Ísraelsmenn hafa neitað verknaðinum. The Guardian greinir frá þessu.

Bein útsending fréttastofunnar var í þann mund að hefjast frá svölum skrifstofuhúsnæðisins á 11. hæð þegar tveimur skotum var skotið í átt fréttamannanna.

„Tveimur skotum var hleypt af í áttina að okkur. Við erum það hátt uppi að við höfum gott útsýni yfir svæðið og við flúðum bygginguna strax,“ segir Stefanie Dekker, talsmaður al-Jazeera.

Í frétt Jerusalem Post segir talsmaður ísraelska hersins (IDF) að engum viðvörunarskotum hafi verið skotið á skrifstofubygginguna. Hann gat þó hvorki staðfest né neitað því að skemmdir gætu hafa orðið á byggingunni sökum skothríðar í nágrenninu.

Í gær sagði utanríkisráðherra Ísraels, Avigdor Lieberman, að banna ætti fréttastöðina vegna þess að hún væri höll undir Hamas-samtökin. Hann bætti við að ráðuneyti hans ynni nú að því að útsendingar al-Jazeera frá Gaza-svæðinu myndu ekki nást á ísraelskum sjónvarpsstöðvum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert