Til hinstu hvílu á þríhjóli

Hinsta för flestra er í líkkistu úr kirkju og út í kirkjugarð. Kistan er oft borin af nánustu ástvinum. En Danir, sem eru þekktir fyrir að ferðast um á reiðhjólum, geta nú valið að fara í  síðustu ferð sína á þríhjóli.

Útfararstjóri í Kaupmannahöfn tók upp á því að bjóða þessa þjónustu, mörgum hjólreiðamanninum þar í landi til mikillar gleði, ef svo má að orði komast. Það urðu þó einhverjir til að gagnrýna uppátækið og segja að sýna eigi hinum látnu meiri virðingu en að ferja þá til grafar á þríhjóli.

„Ég fékk hugmyndina þegar ég sá gamlar myndir af því þegar hestar drógu vagna með líkkistum í gamla daga. Mér fannst þetta fallegt,“ segir útfararstjórinn Sille Kongstad.

„Margar fjölskyldur hafa áhyggjur af umhverfinu og það skiptir þær máli að hafa umhverfisvæna líkkistu eða duftker, og það var gott að geta einnig boðið þeim umhverfisvænan ferðamáta.“

Fyrsta útförin þar sem þríhjólið kom við sögu fór fram hinn 19. júlí. Þá var 95 ára karlmaður lagður til hinstu hvílu en hann var einn þeirra sem njóta „stórra uppákoma í lífi sínu“. Því valdi fjölskyldan að nota þríhjól í útförinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert