Áfram flugbann til Tel Aviv

Stærstu flugfélög heimsins hafa öll hætt flugferðum til Tel Aviv.
Stærstu flugfélög heimsins hafa öll hætt flugferðum til Tel Aviv. AHMAD GHARABLI

Engin flug voru frá Bandaríkjunum til Tel Aviv í dag, annan daginn í röð eftir að bandaríska flugmálastofnunin FAA ákvað að framlengja bann sitt í sólarhring til viðbótar.

Í gær bannaði FAA öllum bandarískum flugvélum að fljúga til Ísrael vegna þess að loftskeyti frá Hamas-samtökunum sprakk í grennd við Ben-Gurion alþjóðaflugvöllinn nálægt Tel Aviv.

Delta, United Airlines og US Airwaves, helstu flugfélög Bandaríkjanna, eru öll með áætlunarflug til Tel Aviv en mikill ferðamannstraumur er til Ísrael á þessum árstíma.

„Við munum halda áfram að fresta flugferðum til og frá Tel Aviv í samræmi við tilskipun FAA og tryggja þannig öryggi bæði viðskiptavina okkar og starfsmanna,“ segir talsmaður flugfélagsins United Airlines í samtali við AFP fréttaveituna.

Richard Anderson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Delta, sagði að nálgast þyrfti málið af varfærni í samtali við fréttastofu CNBC og biðlaði til stjórnvalda í Bandaríkjunum að taka afstöðu til bannsins.

„Þá getum við tekið okkar eigin ákvörðun með hagsmuni viðskiptavina okkar fyrir brjósti,“ segir Anderson.

Flugfélög í Evrópu fella einnig niður flug sín

Í Evrópu hafa flugfélögin Austrian Airlines, Brussels Airlines, Finnair, Iberia, Lufthansa og SAS öll fellt niður flug sín til Tel Aviv.

„Á þessari stundu eru engar vísbendingar sem réttlæta að halda flugferðum okkar áfram,“ segir í tilkynningu frá þýska flugfélaginu Lufthansa.

Bæði flugfélögin og FAA segjast munu endurmeta stöðuna á morgun.

Vélar Lufthansa halda kyrrt fyrir.
Vélar Lufthansa halda kyrrt fyrir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert