Fjöldamorð á flóttamannaskipi

Um 80 þúsund flóttamenn koma sjóleiðina til Ítalíu á ári …
Um 80 þúsund flóttamenn koma sjóleiðina til Ítalíu á ári hverju. Mynd/AFP

Óeirðaástand braust út á skipi á leið frá Túnis til Ítalíu, en skipið var yfirfullt af flóttamönnum sem ætluðu að freista þess að komast til Evrópu í von um betra líf. Súrefnisskortur varð í einu rýminu og brutust út átök sem enduðu á því að um 100 manns var kastað fyrir borð. 

Um 560 manns voru um borð í skipinu. Fleiri hundruð voru geymdir í læstu rými í skipinu en þegar súrefnisskortur fór að gera vart við sig braust út neyðarástand í rýminu og örvæntingarfullir farþegar brutu sér leið út og flúðu upp í brú skipsins. Þar hófust miklar deilur um það hvort snúa ætti skipinu við eða freista þess að sigla áfram til Messina á Ítalíu. Slagsmál brutust út og við lætin varð veltingurinn á skipinu svo mikill að hætta var á því að það myndi sökkva.

Tóku þá einhverjir upp á því að kasta fólki fyrir borð til þess að létta á skipinu, að sögn lögreglunnar í Messina. Alls var um 50 manns kastað lifandi fyrir borð, en um 60 létust í átökunum af hnífstungum, og var þeim einnig kastað fyrir borð. Lögreglan handtók þrjá menn, sem grunaðir eru um að hafa skipulagt siglinguna og tekið við greiðslum frá flóttamönnunum. Þeir voru allir með rútumiða til Mílanó á sér og reyndu að komast undan. Þeir verða ákærðir fyrir fjöldamorð, að sögn lögreglunnar. 

Um 80 þúsund flóttamenn hafa komið sjóleiðina til Ítalíu það sem af er þessu ári og er það metfjöldi, en árið 2011 komu 63 þúsund flóttamenn sömu leið. Hafa ítölsk stjórnvöld beðið Evrópusambandið og ríki í Norður-Evrópu um aðstoð við að taka á þessum stríða straumi flóttamanna en engin aðstoð hefur enn borist. 

Sjá frétt The Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert