Hinsta för Costa Condordia hafin

Costa Concordia skemmtiferðaskipið var híft á flot í síðustu viku …
Costa Concordia skemmtiferðaskipið var híft á flot í síðustu viku og verður dregið af vettvangi slyssins í dag. AFP

Tveimur og hálfu ári eftir skipbrot skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, þar sem 32 létu lífið, var það dregið úr votri gröf sinni í dag. Björgunaraðgerðin á sínum tíma var sú umfangsmesta sem nokkurn tíma hefur verið ráðist í vegna farþegaskips.

Lúxusskipið, sem er um tvöfalt stærra en frægasta farþegaskip allra tíma, Titanic, og eins og þrír fótboltavellir að lengd, er nú orðið ryðkláfur og verður rifið niður í brotajárn.

Skipið verður dregið til hafnar í Genoa í norðvesturhluta Ítalíu, þar sem það verður tekið í sundur. Sumir úr hópi farþega sem lifðu af eru komnir til Giglio-eyju í Toskana-héraði, þar sem slysið mannskæða varð og munu þar fylgjast með og færa skipinu hinstu kveðju ásamt heimamönnum sem verða flestir fegnir að sjá á bak því.

Gríðarlega umfangsmikil aðgerð

„Við vonum að tilfinningarnar sem mörg okkar bera í brjósti muni fara með skipinu. Og að þegar skipið er farið, þá getum við haldið áfram með líf okkar,“ sagði Anne Decre, talsmaður hóps franskra eftirlifenda, þar sem hún stóð við ströndina í gær ásamt vinkonu sinni Nicole Servel, sem missti eiginmann sinn í slysinu.

Flutningarnir munu taka tíma sinn, en skipinu er haldið uppi með flotpramma og verður það dregið af tveimur bátum á aðeins 2 hnúta hraða, eða 3,7 km/klst. Búist er við því að fjóra daga taki að flytja það til Genoa. 17 manna „áhöfn“ verður um borð í flakinu meðan á flutningunum stendur. Auk þess verða 12 fylgdarbátar með m.a. köfurum, verkfræðingum og umhverfissérfræðingum sem hafa eftirlit með flutningunum.

Á skipsskrokkinn hafa verið festir skynjarar sem vara við því ef skrokkurinn tekur að gliðna. Þá munu neðansjávarmyndavélar fylgjast með flakinu alla leið, með innrauðum geislum að nóttu, af ótta við að olía- og eiturefni leki út í hafið. Búist er við því að lausamunir s.s. ferðatöskur, húsgögn og fatnaður farþega gæti flotið upp og verður það gripið í risastór net.

Eins manns er enn saknað eftir slysið, indverska þjónsins Russel Rebello, og verður gerð lokaleit að líkamsleifum hans þegar skipið verður rifið í sundur.

Suður-Afríkumaðurinn Nick Sloane hefur yfirumsjón með aðgerðinni og lýsir henni sem „mestu áskorun ferilsins“ en hann hefur stýrt björgunaraðgerðum af ýmsu tagi í sex heimsálfum og tvisvar í miðju stríði.

Costa Concordia er um tvöfalt stærra en frægasta farþegaskip allra …
Costa Concordia er um tvöfalt stærra en frægasta farþegaskip allra tíma, Titanic, og eins og þrír fótboltavellir á lengd. AFP
Costa Concordia hefur sett mikinn svip á höfnina í Giglio …
Costa Concordia hefur sett mikinn svip á höfnina í Giglio eyju í tvö og hálft ár, íbúum til mikillar armæðu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert