Fimm kenningar um hvarf vélarinnar

Varð hún eldsneytislaus eða var hún skotin niður?
Varð hún eldsneytislaus eða var hún skotin niður? AFP

Vélar Air Algerie-flugfélagsins með 116 manns um borð, er saknað. Samband rofnaði við vélina er hún var á flugi yfir Malí á leið sinni til Alsírs. 110 farþegar voru um borð, þar á meðal fimmtíu Frakkar. Í áhöfn voru sex, allt Spánverjar. Vélin var á leið frá Burkina Faso í Vestur-Afríku til Alsírs í norðurhluta álfunnar.

 Sky-sjónvarpsstöðin hefur tekið saman fimm kenningar sem þegar hafa komið fram um hvarf vélarinnar.

1. Vélin varð eldsneytislaus, þetta kemur m.a. fram í einhverjum fjölmiðlum í Alsír. Hins vegar er ljóst að vélin hafði aðeins verið í um 50 mínútur í loftinu er samband við hana rofnaði.

2. Uppreisnarmenn skutu hana niður. Slíkt er ekki ólíklegt en í gær gáfu bandarísk flugmálayfirvöld m.a. út yfirlýsingu þess efnis að bannað væri að fljúga í lofthelgi Malí vegna stríðsástandsins þar. 

3. Vélinni var rænt. Að minnsta kosti sex dæmi eru um að vélum Air Algerie hafi verið rænt í gegnum tíðina.

4. Veður. Fram hefur komið að flugmálastjórn hafi beðið flugmennina að fara út af fyrirhugaðri leið vegna slæms veðurs. Þá hafi það einnig verið gert til að koma í veg fyrir árekstur við aðra vél í háloftunum. Samkvæmt frétt BBC telja bandarísk yfirvöld að vélin hafi hrapað í norðausturhluta Malí í slæmu veðri.

Aðrar fréttir herma að flugmenn vélarinnar hafi haft samband við flugmálayfirvöld í Níger og beðið um að fá að fljúga aðra leið vegna veðurs.

5. Hrapaði í Níger. Kínverska sjónvarpsstöðin CCTV segir að vélin hafi hrapað í Níger. Ef það er rétt hefur henni verið flogið verulega af leið.

Frétt mbl.is:

Flugvél með 116 manns horfin

Vél frá Air Algerie.
Vél frá Air Algerie. Af Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert