Forsætisráðherra Úkraínu segir af sér

Öskuillur Arseniy Yatsenyuk í úkraínska þinginu í dag.
Öskuillur Arseniy Yatsenyuk í úkraínska þinginu í dag. AFP

Arseniy Yatsenyuk, forsætisráðherra Úkraínu hefur sagt af sér. Þetta gerir hann í mótmælaskyni við það að samstarf samsteypustjórnar landsins rann út í sandinn. Með þessu bætist pólitísk óvissa ofan á það ófremdarástand sem þegar er í landinu.  

Yatsenyuk var mjög heitt í hamsi þegar hann tilkynnti afsögn sína í úkraínska þinginu í dag.

Hann sagði ríkisstjórnina og sig ekki hafa annarra kosta völ en að segja af sér eftir að fjöldi flokka hafði dregið sig út úr samsteypustjórninni. Útlit er fyrir að boðað verði til þingkosninga í landinu á næstunni, þónokkru áður en núverandi kjörtímabili lýkur, en kosninga hefur verið vænst frá því í febrúar, þegar Viktor Yanukovych var bolað úr embætti.

Með þessu fær forseti landsins, Petro Poroshenko, völd til að ákveða hvenær kosningar verða haldnar í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert