Játar að hafa barið barnið til dauða

Mikaeel Kular var þriggja ára gamall.
Mikaeel Kular var þriggja ára gamall. AFP

Móðir Mikaeels Kulars, sem fannst látinn í skóglendi í Edinborg í janúar, játar að hafa barið hann til dauða. Kular var þriggja ára. Móðir hans beitti hann ítrekuðu ofbeldi.

Móðirin, Rosdeep Adekoya, var ákærð fyrir morð. Hún játaði á sig manndráp af gáleysi fyrir rétti í Edinborg í dag.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar kemur fram að hún hafi einnig játað að hafa vafið lík drengsins í sæng, sett það ofan í tösku, og ekið með það í skóglendi í nokkurri fjarlægð frá heimili sínu.

Tilkynnt var um hvarf Mikaeels í janúar. Sagði móðirin að hann hefði komist út í skjóli nætur. Umfangsmikil leit hófst af drengnum og tóku m.a. mörg hundruð sjálfboðaliðar þátt í henni. Lík hans fannst nokkrum dögum síðar.

Adekoya sagði lögreglunni að sonur hennar hefði vaknað, farið fram úr, upp á stól og opnað útidyrahurðina.

En fyrir dómi í dag viðurkenndi hún að hafa barið hann til dauða. Hún sagðist hafa kýlt hann ítrekað svo að kastaðist til og fékk höfuðhögg. Ofbeldið stóð dögum saman.

Móðirin hefur einnig játað að hafa afvegaleitt lögregluna við rannsókn málsins.

Lögmaður hennar segir að hún játi því að hafa beitt son sinn ofbeldi sem leiddi hann til dauða. Hins vegar hafi það ekki verið ætlun hennar að drepa hann. 

Adekoya á fjögur önnur börn. Meðal þess sem kom í ljós við rannsókn á tölvu hennar var að hún hafði slegið setninguna „ég á erfitt með að elska son minn“ inn í leit í vafra tölvunnar. Einnig hafði hún skrifað: „Ég elska öll börnin mín nema eitt“. Að auki hafði hún leitað svara við því hvernig væri hægt að fela marbletti.

Mikaeel litli lést aðfararnótt 14. janúar. Móðir hans hafði misst stjórn á skapi sínu er hann varð ítrekað veikur í kjölfar heimsóknar á veitingastað.

Dómur verður kveðinn upp í ágúst.

Frétt mbl.is: Beitti soninn ofbeldi dögum saman

Mikaeels Kulars minnst.
Mikaeels Kulars minnst. AFP
Líkið fannst í skóglendi í Edinborg.
Líkið fannst í skóglendi í Edinborg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert