Börnin verði send tafarlaust heim

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að öll börn sem fari ólöglega yfir landamærin og til Bandaríkjanna verði send úr landi - án tafar. Hann fundaði um málið með forsetum Gvatemala, Hondúras og El Salvador í nótt.

Í sameiginlegri yfirlýsingu forsetanna segir að mikilvægt verkefni sé að minnka fátækt barna sem koma frá ríkjum Mið-Ameríku þannig að þau eigi ekki þann kost einan að flýja land og freista þess að komast yfir landamærin.

Talið er að yfir fimmtíu þúsund ungmenni hafi reynt að komast ein síns liðs yfir landamæri Mexíkó og til Bandaríkjanna á seinasta ára. Ungmennin koma aðallega frá Gvatemala, Hondúras og El Salvador, þar sem þau búa við sára fátækt.

Auk þess að ítreka að öll börn sem færu ekki löglega yfir landamærin yrðu send tafarlaust úr landi, þá óskaði Obama jafnframt eftir því að fjárveitingar til að auka eftirlit við landamærastöðvar Bandaríkjanna í Mexíkó verði auknar. Vonast hann til að bandaríska þingið samþykki um fjögurra milljarða Bandaríkjadala fjárveitingu til að efla eftirlitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert