Frakkar bjóða kristnum Írökum hæli

Mosul - Í Írak er að finna einhver elstu kristnu …
Mosul - Í Írak er að finna einhver elstu kristnu samfélög heims. AFP

Stjórnvöld í Frakklandi segjast tilbúin til að veita þeim kristnu Írökum hæli sem voru neyddir til að flýja borgina Mosul í Norður-Írak af herskáum íslamistum. 

Margir flúðu Mosul eftir að ISIS-samtökin, sem hertóku stóran hluta Norður-Írak, settu kristnum þá kosti að taka íslamstrú, borga sérstakt gjald eða vera teknir af lífi.

Frá þessu greinir fréttaveita BBC, sem notast nú við skammstöfunina IS (e. Islamic State) fyrir samtökin sem voru þekkt sem ISIS (e. Islamic State in Iraq and the Levant). Þar segir einnig að í Írak sé að finna einhver elstu kristnu samfélög heims.

„Við erum tilbúnir, ef þess er óskað, til að greiða fyrir hæli á landsvæði okkar,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu tveggja ráðherra í ríkisstjórn Frakklands, þeirra Laurents Fabius utanríkisráðherra og Bernard Cazeneuve innanríkisráðherra.

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eru aðeins tuttugu fjölskyldur eftir af hinum forna kristna minnihluta í borginni, sem Louis Sako, kristinn klerkur í Írak, segir að hafi verið um 35 þúsund manna hópur fyrir áhlaup ISIS og um 60 þúsundir árið 2003.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert