Kveiktu í hverfi og drápu þrjá

Frá Pakistan.
Frá Pakistan. AFP

Æstur múgur kveikti í hverfi ahmadi-múslíma í Pakistan. Kona og tvær stúlkur létust en árásin var gerð vegna ásakana um guðlast. 

Árásin átti sér stað á sunnudagskvöld í borginni Gujranwala, um 112 kílómetrum norður af Lahore.

Málið snýst um að sautján ára drengur, Aqib Salim, hafði birt mynd á Facebook sem var vini hans, Saddam Hussain, ekki að skapi. Sagði Hussain myndbirtinguna guðlast.

Piltarnir slógust úti á götu og margir komu að og hófu að mótmæla. Í kjölfarið fór æstur múgurinn um hverfið og kveikti í fimm eða sex húsum. Ahmadi-múslímar verða oft fyrir aðkasti í Pakistan en samfélag þeirra var stofnað árið 1838. Þeir telja stofnandann, Ghulam Ahmad, hafa verið spámann. Þeir mega ekki kalla sig múslíma samkvæmt lögum í Pakistan.

Átökin enduðu með því að kona og tvær stúlkur, sjö ára og eins árs, létust í eldsvoðanum. Átta til viðbótar særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert