Næturhiminninn bjartur á Gaza

Árás Ísraelshers hélt áfram í nótt og er talið að hún hafi verið ein sú blóðugasta síðan átökin fyrir botni miðjarðarhafs hófust fyrir um þremur vikum. Skotið var á Gaza af jörðu, hafi og úr lofti. Lýsa erlendir fjölmiðlar því þannig að aldrei hafi almennilega orðið dimmt í Gazaborg vegna blysa sem herinn notaði og lýstu upp næturhiminninn.

Engar tölur um mannfall hafa enn borist en ljóst er að ekkert lát er á átökunum. Þannig létust 26 Palestínumenn, þar af fjögur börn, í gær. Þá tilkynnti her Ísrael að fimm hermenn hefðu látið lífið. Alls ólíklegt þykir að átökum stríðandi fylkinga ljúki í bráð, ekki síst eftir yfirlýsingu Benjamíns Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.

Þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið kalli eftir vopnahléi á milli Hamas samtakanna og Ísraelsher heldur stríðsrekstur áfram. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, átti í gær langan fund með Netanyahu þar sem hann árétti ákall um vopna hlé. „Í nafni mannúðar verður ofbeldinu að ljúka,“ sagði hann eftir fundinn.

Netanyahu hins vegar fór í sjónvarpsviðtal stuttu síðar og sagði Ísrael verða að búa sig undir að aðgerðir gegn Palestínumönnum gætu tekið langan tíma.

Alls hafa meira en 1.100 Palestínumenn látið lífið í aðgerðum Ísraelshers og 53 ísraelskir hermenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert