Gefa ljótu ferskmeti nýtt líf

Ekki allt grænmeti er eins fallegt og á þessari mynd, …
Ekki allt grænmeti er eins fallegt og á þessari mynd, en þýðir það að við eigum að henda því? mbl.is/AFP

Þegar við keyrum innkaupakerrum okkar framhjá ávaxta- og grænmetisdeildinni í matvöruverslunum blasir gjarnan við okkur girnilegt úrval fagurskapaðra ávaxta. Þetta líkar okkur, enda erum við hvött til að borða sem mest ferskmeti. Við viljum mat sem er hollur og góður. Margir gera hinsvegar ekki síður fagurfræðilegar kröfur til ávaxtanna. Þannig eigum við til að forðast þetta eina epli í hillunni sem er ekki eins fallegt, en alveg jafn næringarríkt, og hin.

Oftast ratar „vanskapað“ ferskmeti reyndar ekki einu sinni í hilluna, heldur er því hent áður en kúnninn fær að bera það augum. Vegna þessa er um 300 milljónum tonna af mat sóað árlega, samkvæmt umfjöllun síðunnar Takepart

„Viðbjóðslegar appelsínur“ á kostakjörum

Frönsk matvöruverslun, Intermarché, gerði nýverið áhugaverða tilraun til að selja fólki ljótt ferskmeti, í tilefni þess að árið 2014 er evrópska árið gegn sóun á mat. Í því skyni voru „óglæsilegir ávextir og grænmeti“ markaðssettir sérstaklega og með afslætti.

Ófrýnilegu vörurnar fengu meira að segja sín eigin nöfn á borð við „fáránlega kartaflan“ og „viðbjóðslega appelsínan.“ Til að sanna að útlitið skipti ekki öllu var viðskiptavinum gefinn safi úr ávöxtunum, sem reyndist alveg jafn bragðgóður og safi úr venjulegum, fallegum ávöxtum. 

Þetta framtak hefur eflaust fengið fólk til að hugsa sig tvisvar um áður en það ákvað að henda ljótu gulrótunum í ísskápnum í ruslið. Franskir fjölmiðlar fóru meira að segja að velta því fyrir sér hvers vegna aðrar matvöruverslanir buðu ekki uppá ófullkomið ferskmeti í kjölfarið.

Ljótu tómatarnir í íslenska tómatssósu

Á Íslandi hefur enn ekki sést álíka tilraun til að markaðssetja ljótt ferskmeti í búðum, en þó er ýmsum ráðstöfunum beitt. Til að mynda eru um sex mánuðir síðan byrjað var að nýta ljóta tómata, eða „annars flokks vöru,“ í íslenska tómatssósu. Þetta segir Jóhannes Hafsteinn Sigurðsson, sölustjóri hjá Sölufélagi garðyrkjumanna, í samtali við mbl.is. „Það er stefna okkar að reyna að nýta þetta allt.“ 

Gott er að velta þessu fyrir sér og bera saman ágæti ljóts og fallegs matar, sérstaklega í ljósi þess að um 30% matvæla voru talin fara forgörðum á Íslandi í fyrra. Á tímum sem fleiri og fleiri leita til Fjölskylduhjálpar og Mæðrastyrksnefndar til aðstoðar, svo ekki sé minnst á að hungursneyð ríki enn víða í heiminum, væri kannski ráð að maturinn lenti í svöngum munnum frekar en í ruslinu.

Hér fyrir neðan er myndskeið sem fjallar um framtak Intermarché.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert