Þriggja sólarhringa vopnahlé á Gaza

AFP

Samið hefur verið um 72 klukkustunda langt vopnahlé á Gaza. John Kerry, utanríkismálaráðherra Bandaríkjanna greindi frá þessu fyrir stundu. 

Talsmaður Hamas-samtakanna hefur staðfest að fallist hafi verið á vopnahléð.

Vopnahléið sem gert er af mannúðarástæðum hefst klukkan átta að staðartíma fyrramálið og munu Ísraelar og Palestínumenn funda í Kaíró á meðan því varir.

Kerry sagði vopnahléið vera nauðsynlegt almennum borgunum. „Á meðan því varir fá almennir borgarar nauðsynlegt hlé til þess að grafa hina látnu, sjá um særða og byrgja sig upp af matvælum,“ sagði hann í stuttri yfirlýsingu frá Nýju-Delí í Indlandi í kvöld. Þá sagði hann að nauðsynlegar viðgerðir á vatns- og rafmagnsveitum gætu einnig átt sér stað.

Kerry mun tilkynna vopnahléð formlega ásamt Ban Ki-Moon framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Mikið mann­fall hef­ur orðið í átök­um Ísra­els­hers og Ham­as-sam­tak­anna á Gaza síðan þau hófust þann 8. júlí. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá björg­un­ar- og hjálp­ar­sveit­um á Gaza hafa 1.442 Palestínu­menn og 58 Ísra­el­ar hafa látið lífið, auk eins taí­lensks verka­manns í Ísra­el.

Ellefu manns létust í einni loftárás á Nusseirat flóttamannabúðirnar í kvöld. Þá létust sjö í tveimur árásum á borgina Khan Yunis og tveir aðrir í loftárás á Deir al-Balah. Alls létust 44 Palestínumenn í árásunum í dag auk 13 annarra sem létust af sárum sínum vegna fyrri árása.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert