Bílar í loftköstum og gjár í götum

Margar og öflugar gassprengingar urðu að minnsta kosti 25 að bana í borginni Kaohsiung í Taívan í dag. Sprengingarnar voru svo öflugar að bílar tókust á loft og malbik flettist af vegum. Um 270 manns særðust.

Í kjölfar sprenginganna kviknuðu miklir eldar sem breiddust hratt út um Cianjhen-hverfið í borginni. Eldtungurnar náðu flýjandi fólki á hlaupum svo lík liggja á víð og dreif um göturnar. Eldurinn komst í holræsakerfið og teygðu eldtungurnar sig upp um holræsisop. Örvæntingarfullir bílstjórar reyndu að komast undan því að verða eldinum að bráð. 

Meðal þeirra sem létust voru fjórir slökkviliðsmenn sem komu á vettvang skömmu eftir að íbúar höfðu kvartað undan megnri gaslykt.

Talið er að sprengingin hafi orðið í gasleiðslum sem liggja neðanjarðar. Göturnar hreinlega rifnuðu undan krafti sprenginganna. Gjár mynduðust í vegum sem bílar, m.a. slökkviliðsbíll, fóru svo niður um.

Kaohsiung er önnur stærsta borg Taívans. 

„Ég sá eldinn teygja sig fleiri tugi metra upp í loftið eftir sprengingu og þegar slökkviliðsbíll og fleiri bílar köstuðust í burtu. Ég sá um tíu lík liggja á götunni,“ segir sjónarvottur við AFP-fréttastofuna.

Íbúar hafa aðstoðað við að koma særðum af vettvangi. „Sprengingarnar voru eins og þrumur og vegurinn fyrir framan mig rifnaði í sundur. Þetta var eins og jarðskjálfti,“ segir annar sjónarvottur.

Seint í gærkvöldi barst tilkynning um mögulegan gaslega. Um miðnætti að staðartíma urðu svo sprengingar. Sprengingarnar urðu á nokkuð stóru svæði enda lekinn talinn neðanjarðar og gasið hafa fyllt holræsakerfið.

Talið er að búið sé að ráða niðurlögum eldsins að mestu en búið er að girða af stórt svæði þar sem enn er talin hætta á sprengingum.

Um 1.400 hermenn eru meðal þeirra sem aðstoða á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert