Fleiri störf í Bandaríkjunum

Störfum fjölgar og hagvöxtur mældist betri en spár gerðu ráð …
Störfum fjölgar og hagvöxtur mældist betri en spár gerðu ráð fyrir STAN HONDA

209.000 störf bættust í vinnumarkað Bandaríkjanna í júlí, sem þykir auka bjartsýni um skjótan bata efnahags landsins. Þá mældist hagvöxtur 4 prósent á tímabilinu frá apríl til júní, sem er betra en búist var við. Atvinnuleysi mælist 6,2 prósent, sem er aukning, og kann það að skýrast af því að júlí er oft með lakari mánuðum með tilliti til framboðs á störfum.

Ofantalið þykir sýna að fjöldi fólks á bandarískum atvinnumarkaði er að aukast og að þeir sem höfðu gefist upp á því að leita sér vinnu séu aftur farnir að gefa kost á sér. Flest störf bættust við í sérfræði- og framleiðslugeirunum. Þetta er sjötti mánuðurinn í röð sem meira en 200 þúsund störf bætast við bandarískan efnahag.

Þó eru ýmis tilefni til áhyggna. Tekjuvöxtur er óbreyttur og fjöldi þeirra sem stríða við langtímaatvinnuleysi er enn í kringum 3,2 milljónir í landinu. 150 þúsund störf þurfa að koma á vinnumarkað til þess eins að komast til móts við fólksfjölgun í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram á BBC, fréttaveitu breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert