Í fyrsta skipti út úr frumskóginum

Fólkið kom að þorpi í norðurhluta Brasilíu, líklega í leit …
Fólkið kom að þorpi í norðurhluta Brasilíu, líklega í leit að vopnum og bandamönnum. AFP

Einangrað þjóðarbrot, þar sem allir klæðast lendarskýlum og nota boga og örvar við veiðar, hefur nú uppgötvast í Amazon-regnskóginum. Ein fyrstu samskipti þeirra við utanaðkomandi fólk voru fest á myndband af yfirvöldum í Brasilíu.

Á myndskeiðinu sést fólkið hitta fólk sem tilheyrir Ashaninka-þjóðinni í norðurhluta Brasilíu, skammt frá landamærunum að Perú.

Má meðal annars sjá mann frá Ashankinka gefa tveimur lendarskýluklæddum mönnum bananaknippi. Mennirnir eru varir um sig, grípa svo ávextina og hörfa.

Sérfræðingar í frumbyggjum Suður-Ameríku segja að fólkið hafi líklega komið frá Perú. Það hafi hrakist þaðan vegna skógarhöggs, árása hópa sem stunda eiturlyfjasmygl.

Talið er líklegt að þetta hafi verið fyrstu kynni fólksins af öðrum en þeim sem tilheyra þeirra eigin þjóð. Í kjölfar þessara kynna fóru sérfræðingar frá samtökum frumbyggja á svæðið 30. júní sl. Fólkið vildi ekki hafa mikil samskipti og hörfaði fljótlega aftur inn í frumskóginn.

„Þau voru að flauta og gera dýrahljóð,“ segir Carlos Travassos, formaður samtakanna. Ákveðið var að hafa túlk með í næstu heimsókn og reyndist það vel þar sem fólkið talar tungumál sem tilheyrir Pano-tungumálafjölskyldunni. 

„Þau tala okkar tungumál. Ég var svo glaður að við gátum talað saman,“ segir einn túlkurinn, Jaminawa Jose Correia. Hann segir að fólkið hafi komið til að leita að vopnum og vonast til að eignast bandamenn.

„Þeir lýstu því þegar á þá var ráðist og að margir hefðu dáið þar sem fólkið hefði smitast af flensu og niðurgangi,“ sagði túlkurinn. 

Mannfræðingurinn Terri Aquino segir að fólkið hafi leitað vopna eins og axa og hnífa. „Þetta fólk vill tæknina. Það skiptir þau miklu máli því að þau eiga í innbyrðis deilum.“

Fólkið kom að fyrra bragði í Ashaninka-þorpið í upphafi. Samtök frumbyggja segja að það hafi svo snúið aftur út í regnskóginn þar sem sumir hefðu fengið flensu. Yfirvöld í Brasilíu sendu hjúkrunarfólk þeim til aðstoðar.

Mannréttindasamtök í Brasilíu segja þetta áhyggjuefni. Vitað er til þess að heilu samfélögin hafi þurrkast út eftir að hafa verið í einangrun en svo komist í kynni við annað fólk.

AFP
Myndir af fólkinu.
Myndir af fólkinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert