Læknirinn sagður skelfingu lostinn

Kent og Amber Brantley ásamt börnum sínum. Þau fluttu öll …
Kent og Amber Brantley ásamt börnum sínum. Þau fluttu öll til Líberíu í Afríku í október 2013. Dr. Kent veiktist af ebólu í síðustu viku. Ljósmynd/Úr einkasafni

Kent Brantly, bandaríski læknirinn sem sýktur er af ebóla-veirunni, viðurkennir að hann sé skelfingu lostinn vegna veikindanna. Brantly, sem er tveggja barna faðir, fór frá Texas til Líberíu í október á vegum hjálparsamtaka og ákvað að vera um kyrrt þegar ebólan braust út. Engin þekkt lækning er við ebólu og 90% sjúklinga deyja.

„Ég bið þess af öllum mætti að Guð hjálpi mér að sigrast á þessum sjúkdómi,“ skrifaði dr. Brantly á mánudag í tölvupósti til vinar síns og kollega í Bandaríkjunum, frá sjúkrahúsinu í Monróvíu þar sem hann liggur í einangrun.

Í gær bárust þær fregnir að honum hefði hrakað og í morgun var sagt frá því að tilraunalyf gegn ebólu, sem borist hafi til landsins, dugi aðeins fyrir einn og Brantly hafi óskað þess að hjúkrunarfræðingurinn Nancy Writebole fengi meðferðina frekar en hann. Fórnfýsi hans hefur vakið mikla athygli.

Fann sjálfur einkennin og lokaði sig af

Brantly er heimilislæknir að mennt og búsettur í Texas, en hann hefur verið við störf í Líberíu í Afríku fyrir kristilegu hjálparsamtökin Samaritan's Purse síðan í október 2013. Eiginkona hans, Amber Brantley, og tvö ung börn þeirra fylgdu með út.

Ebólaveiran hófst í Gíneu í byrjun febrúar en breiddist fljótlega út til Síerra Leóne og Líberíu. Brantly ákvað að vera um kyrrt og tók hann við yfirumsjón ebólameðferðar hjálparsamtakanna í júní. Í vikunni sem leið fór Brantly að finna sjálfur fyrir einkennum og lokaði sig þá þegar af í sóttkví. Hann smitaðist þrátt fyrir að hafa fylgt öllum varúðarráðstöfunum og klæðst hlífðarfötum frá toppi til táar þegar hann sinnti sjúklingum, að því er fram kemur á vef Sky.

Þannig vildi til að eiginkona hans og börn fóru frá Líberíu örfáum dögum áður en hann veiktist, til að vera við brúðkaup í Texas. Þau dvelja nú hjá ættingjum og er náið fylgst með því hvort nokkur einkenni komi fram hjá þeim. Meðgöngutími sjúkdómsins, þ.e. tíminn frá smiti og þar til einkenni koma í ljós, er 2-21 dagur og á þeim tíma er einstaklingurinn ekki smitandi.

Amber Brantley birti í gær yfirlýsingu á vefsíðu hjálparsamtakanna, þar sem hún þakkar fyrir allar þær fyrirbænir og þann stuðning sem fjölskyldan segist hafa fundið á erfiðum tímum. „Ég er vongóð og trúi því að Kent muni læknast af þessum skelfilega sjúkdómi. Ég er þakklát fyrir daglegar skýrslur sem ég fæ frá læknum hans á svæðinu. Hann er sterkur, yfirvegaður og öruggur í kærleika sínum gagnvart Jesú kristi, sem er hans helsti styrkur núna.“

Umdeild meðferð með blóðgjöf

Ebólafaraldurinn sem geisar nú í Vestur-Afríku er sá versti í sögunni. Yfir 1.300 hafa sýkst, sem er margfalt fleiri en í fyrri faröldrum, og í það minnsta 720 eru látnir. Ekkert lyf eða bóluefni er til við sjúkdómnum og alvarlegasta afbrigðið, sem nú berst manna á milli, dregur 90% þeirra sem sýkjast til dauða.

Newsweek segir frá því í dag að þótt engin lækning sé þekkt sé nú gripið til allra ráða til að hjálpa þeim sjúku, ekki síst þeim sem hafa veikst við að hlúa að öðrum. Ýmsar tilraunameðferðir hafa verið til skoðunar hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnunninni (WHO) og sóttvarnareftirliti Bandaríkjanna (CDC) þar á meðal er umdeild meðferð sem gripið var til gagnvart dr. Kent Brantly í gær, og er líklega hans eina von um að lifa af.

Meðferðin felst í blóðgjöf frá sjúklingi sem læknaðist ef ebólu, 14 ára líberískum pilti sem dr. Brantley annaðist og virðist hafa myndað mótefni. Hugmyndin er sú að blóðgjöfin gæti hjálpað líkama dr. Brantley við að mynda sitt eigið mótefni. Þetta er óvanalegt, en ekki óþekkt því til er fordæmi sem gæti lofað góðu fyrir dr. Brantley, að sögn Newsweek.

7 af 8 blóðþegum í Saír læknuðust

Fyrir tæpum áratug, í júní 1995, geisaði ebóla-vírusinn í Lýðveldinu Kongó, sem þá hét reyndar Saír. Smitsjúkdómasérfræðingar og sjálfboðaliðar frá WHO, CDC, læknum án landamæra, Rauða krossinum fóru til landsins og innan skamms tíma tókst að rjúfa smitleiðir og stöðva útbreiðsluna.

Það fór þó ekki betur en svo að á síðustu dögum faraldursins sýktist hjúkrunarfræðingur. Læknirinn Robert Colebunder segir í samtali við Newsweek að gripið hafi verið til þess ráðs að gefa henni blóð úr fólki sem hafði fengið einkenni en læknast. Erlendu heilbrigðisstarfsmennirnir höfðu ekki trú á því að það myndi virka, en heimamenn gerðu það samt og gáfu hjúkrunarfræðingnum og 7 öðrum sjúklingum, þeim síðustu sem veiktust í faraldrinum, reglulega slíkt blóð. Niðurstaðan fór fram úr björtustu vonum, því 7 af 8 læknuðust og lifðu af.

Lyfjaþróun reynst erfið vegna dánartíðni

Síðar var fjallað um niðurstöðuna í vísindaritinu Journal of Infectious Diseases. Sömu meðferð hefur verið beitt gegn öðrum smitsjúkdómum með svipuðum niðurstöðum, að því er bandaríski læknirinn Heinrich Feldmann segir í samtali við Newsweek.

Aðspurður hvers vegna þetta hafi ekki orðið til þess að þróað hafi verið bóluefni við ebóla-veirunni segir Feldmann að nánast ómögulegt hafi reynst að gera tilraunir með ebólu, vegna þess að hún kemur tilviljanakennt upp, og flestir þeir sem sýkjast deyja, eða allt að 90%.

„Það er útilokað að ná nægilega miklum blóðvökva meðan faraldur geisar til að hjúkra öðrum sem veikjast í sama faraldri,“ segir Feldmann. „Hinsvegar ef við söfnum blóðvökva núna fyrir næsta faraldur, þá gætum við haft tíma til þess.“

Feldmann segist þó ekki vita til þess að verið sé að safna blóðvökva úr sjúklingum sem ná heilsu í Vestur-Afríku. Læknist dr. Brantley af ebólunni gæti 14 ára pilturinn sem gaf honum blóð, og ekki hefur verið nafngreindur, orðið lykilmaður í framtíðarrannsóknum við þróunar lyfs gegn ebólu.

Bandaríski læknirinn Kent Brantly liggur nú milli heims og helju …
Bandaríski læknirinn Kent Brantly liggur nú milli heims og helju í Líberíu og sömu sögu má segja um landa hans, hjúkrunarfræðinginn Nancy Writebol. Þau eru meðal þeirra 1.200 sem sýkst hafa af ebólaveirunni. AFP
Hin banvæna ebóla er sú veira sem er hvað hættulegust …
Hin banvæna ebóla er sú veira sem er hvað hættulegust manninum. AFP
Starfsmaður Lækna án landamæra klæðist hlífðarbúningi á Donka sjúkrahúsinu í …
Starfsmaður Lækna án landamæra klæðist hlífðarbúningi á Donka sjúkrahúsinu í Donakry í Gíneu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert