Tekist á um Ísrael og sendiherra á bandaríska þinginu

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeild bandaríska þingsins.
Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeild bandaríska þingsins. Mynd/AFP

Bandaríska þingið fer á morgun í fimm vikna sumarfrí og er því nóg að gera hjá þingmönnum í dag. Þingið hefur enn ekki samþykkt nærri því alla þá sendiherra sem Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt og því útlit fyrir því að biðin verði áfram löng.

Á þinginu var í dag tekist á um meðal annars skipun sendiherra í Rússlandi. Tókst að lokum að ná samkomulagi og var John Teft skipaður sendiherra í landinu. Ekki er útlit fyrir að fleiri sendiherrar verði samþykktir í dag og verðum við Íslendingar því sennilega að bíða í að lágmarki fimm vikur eftir nýjum sendiherra. 

Barack Obama hefur að vísu heimild til þess að skipa sendiherrann sjálfur, á meðan þingið er í sumarleyfi. Slík skipun (e. Recess appointment) gildir hins vegar aðeins fram að næstu þinglokum nema þingið samþyki skipunina þegar það kemur aftur saman í september.

Demókratar í öldungadeild þingsins lögðu fram tillögu um 2,7 milljarða dollara fjárveitingu til að styrkja landamæravarnir. Í þeirri tillögu var að finna 225 milljónir dollara til þess að styrkja Iron Dome-eldflaugavarnarkerfi Ísraela. Repúblikanar höfnuðu tillögunni og var hún ekki samþykkt.

Þá reyndi Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, að aðskilja frumvörpin til þess að fá samþykki fyrir bæði fjárveitingunni til Ísraela og fjárveitingu til slökkvistarfa á vesturströnd Bandaríkjanna, þar sem skógareldar hafa geisað. Aftur höfnuðu repúblikanar tillögunni á þeim grundvelli að fjárútlátin myndu auka of mikið á skuldastöðu Bandaríkjamanna. 

Sjá fréttir Politico um málið hér og hér

Robert C. Barber hefur verið tilnefndur af Barack Obama sem …
Robert C. Barber hefur verið tilnefndur af Barack Obama sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Tilnefning hans bíður enn staðfestingar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert