Dæmdur kynferðisbrotamaður á flótta

Lögreglan í Paragvæ hefur handtekið brasilískan frjósemislækni sem var á flótta undan réttvísinni. Maðurinn, Roger Abdelmassih, hlaut dóm fyrir að brjóta kynferðislega gegn 39 konum sem höfðu leitað til hans vegna ófrjósemi.

Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Hann hefur verið á flótta frá árinu 2011 eftir að hafa verið dæmdur í 278 ára fangelsi fyrir að brjóta gegn konum sem leituðu á stofuna hans í Sao Paulo vegna ófrjósemi.

Abdelmassih er vel þekktur í heimalandinu og hefur m.a. aðstoðað margar stjörnur. Að undanförnu hefur hann búið í hverfi fyrir hina efnameiri í Asuncion, höfuðborg Paragvæ, ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum.

Handtakan var liður í samvinnuverkefni milli lögregluyfirvalda í Brasilíu og Paragvæ.

Abdelmassih, sem er sjötugur, var fluttur til brasilísku borgarinnar Foz do Iguac, sem er við landamærin að Paragvæ. Hann verður síðar fluttur til Sao Paulo þar sem hann framdi brotin.

Þrátt fyrir að hann hafi hlotið 278 ára dóm þá mun hann í mesta lagi þurfa að afplána 30 ára fangelsi samkvæmt brasilískum lögum. 

Hann var upphaflega handtekinn árið 2009 eftir að fyrrum starfsmaður hafði fordæmt Abdelmassih.

Alls stigu 39 konur fram sem sögðu að hann hefði nauðgað eða brotið gegn sér kynferðislega við læknisskoðanir eða þegar þær voru að jafna sig eftir að hafa undirgengist frjósemisaðgerð. Þær sögðust hafa verið verið á deyfingarlyfjum þegar hann braut á þeim. Brotin áttu sér stað á milli 1995 og 2008.

Abdelmassih sagðist aldrei hafa verið einn með konunum. Hann hélt því fram að sumar þeirra hefðu mögulega séð ofskynjanir sem væru áhrif lyfjagjafarinnar.

Hann hlaut dóm árið 2010 en fékk leyfi til að ganga frjáls eftir að hann áfrýjaði dómnum. Ári síðar flúði hann Brasilíu þegar dómstóll í Sao Paulo gaf út handtökuskipun á hendur honum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert