Flögguðu úkraínska fánanum

Úkraínska fánanum var í dag flaggað á Kotelniki-skýjakljúfinum í Moskvu höfuðborg Rússlands í dag og stjarna á toppi hans frá tímum Sovétríkjanna einnig máluð í þjóðarlitum Úkraínu.

Markmiðið með tiltækinu var vafalítið að mótmæla framgöngu Rússa í garð Úkraínumanna en Rússland innlimaði Krímskaga fyrr á árinu sem áður tilheyrði Úkraínu og hefur síðan ógnað Úkraínu með her sínum. Þá hafa Rússar verið sakaðir um að aðstoða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu og útvega þeim vopn.

Ekki er vitað hverjir stóðu að tiltækinu en snarlega var brugðist við og fáninn fjarlægður og öll stjarnan máluð gul. Haft er eftir talsmanni rússneskra stjórnvalda í frétt AFP að tiltækið hefði verið framið af óþekktum glæpamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert