Breyttist úr hetju í útlaga

Mótmælt hefur verið víða um Bandaríkin þar sem mótmælendur krefjast …
Mótmælt hefur verið víða um Bandaríkin þar sem mótmælendur krefjast réttlætis til handa hinum átján ára gamla Michael Brown. AFP

Það tók lögreglumanninn Darren Wilson sex mánuði og sex byssukúlur að breytast úr virtri og verðlaunaðri hetju í heimabæ sínum í heimsþekktan útlaga í felum frá samborgurum sínum.

Viðurkenning fyrir framúrskarandi lögreglustörf

Wilson skaut óvopnaða blökkumanninn Michael Brown til bana í bænum Ferguson í Missouri þann 9. ágúst. Brown var átján ára gamall. Atvikið hefur leitt til látlausra mótmæla og óeirða í bænum þar sem mikil reiði ríkir meðal íbúa, en mótmæli hafa einnig farið fram víða annars staðar í Bandaríkjunum. Blökkufólk er í meirihluta meðal bæjarbúa, en þrátt fyrir það eru eru 50 af 53 lögregluþjónum bæjarins hvítir, þ.á.m. Darren Wilson.

Wilson er 28 ára gamall og hefur starfað sem lögreglumaður í Ferguson í fjögur ár. Aðeins hálft ár er liðið síðan honum var veitt sérstök viðurkenning fyrir atvik þar sem honum tókst að yfirbuga fíkniefnasala í átökum í bíl hans. Viðurkenninguna hlaut hann fyrir „framúrskarandi lögreglustörf“.

Missti móður sína ungur

Wilson fæddist í Texas, en flutti þriggja ára gamall til St. Louis borgar ásamt móður sinni eftir að hún og faðir hans skildu. Móðir hans gifti sig þrisvar, en árið 2001 var hún dæmd í fimm ára skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað og skjalafals. Hún lést ári seinna.

Wilson gifti sig árið 2011, en skildi ári seinna. Hann er nú í sambandi með konu sem einnig starfar sem lögregluþjónn í Ferguson og keyptu þau saman einbýlishús í bænum í fyrra. Í dag er Wilson hins vegar í felum og hafa hann og fjölskyldumeðlimir hans lokað síðum sínum á samfélagsmiðlum til að forðast áreiti og ofsóknir. Atburðarásin sem leiddi til þess að Wilson skaut Michael Brown sex skotum er óljós, en nokkur vitni halda því fram að hann hafi verið með hendur á lofti og hlýtt skipunum Wilsons þegar hann var skotinn. Önnur vitni halda því hins vegar fram að hann hafi veist að Wilson og reynt að grípa í skammbyssu hans.

Kurteis rólyndismaður

Náinn vinur Wilsons hélt því fram í samtali við ABC fréttastofuna að hann þjáðist af alvarlegum andlitsáverkum eftir áflog við Brown. Annar vinur hans sagði hann vera kurteisan rólyndismann sem aldrei missti stjórn á skapi sínu. „Mér finnst ótrúlegt að hann hafi getað skotið nokkurn mann, þrátt fyrir að starfa sem lögreglumaður,“ sagði hann.

Wilson er ekki án stuðningsmanna, en síða til stuðnings honum á Facebook hefur fengið yfir 50 þúsund „læk“ og 130 þúsund Bandaríkjadalir hafa safnast til styrktar honum í netsöfnun. Á síðunni eru skipulagðir ýmiss konar atburðir, en m.a. er fyrirhuguð fjöldasamkoma stuðningsmanna Wilsons um helgina. Margir þeirra hafa auk þess sett lögregluskjöld sem forsíðumynd sína á Facebook. Myllumerkið #supportdarrenwilson hefur síðan notið nokkurra vinsælda á Twitter, en notendur miðilsins segjast „biðja fyrir honum“ og „vita að hann hafi tekið rétta ákvörðun“.

Stuðningsmenn Wilsons hafa m.a. látið útbúa sérmerkta boli.
Stuðningsmenn Wilsons hafa m.a. látið útbúa sérmerkta boli. Ljósmynd/Facebook.com
Viðbúnaður lögreglu í Ferguson hefur verið mikill undanfarna daga.
Viðbúnaður lögreglu í Ferguson hefur verið mikill undanfarna daga. AFP
Stuðningsmenn Wilsons árituðu plakat með skilaboðum til hans.
Stuðningsmenn Wilsons árituðu plakat með skilaboðum til hans. Ljósmynd/Facebook.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert