Sýknaður eftir tuttugu ár

AFP

Ástrali sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morð árið 1995 var í dag látinn laus. Hann hefur því setið í tæp tuttugu ár í fangelsi fyrir morð sem ekki þykir sannað að hann hafi framið.

David Eastman, 68 ára, var árið 1995 dæmdur fyrir morðið á háttsettum lögreglumanni, Colin Winchester, en hann var myrtur árið 1989. 

Eastman, sem áður var opinber starfsmaður, hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. Aftur  á móti þykir ýmislegt benda til sektar hans, samkvæmt niðurstöðu dómsins, en þar sem það þykir ekki nægjanlega sannað eigi að láta hann lausan að ákveðnum skilyrðum settum. 

Í maí var það niðurstaða rannsóknarnefndar að réttarhöldin yfir Eastman hafi ekki verið réttlát og því mælt með því að hann yrði látinn laus. 

Winchester var skotinn tvívegis í höfuðið af stuttu færi er hann fór út úr bifreið sinni í Canberra 10. janúar 1989. Var jafnvel talið að skipulögð glæpasamtök hefðu látið drepa hann en Eastman var síðan handtekinn þar sem lögreglan hélt því fram að hann hefði haft í hótunum við  Winchester. Ástæðan fyrir hótunum í garð Winchesters var sú að lögreglumaðurinn vildi ekki draga ákæru til baka þar sem Eastman var sakaður um hótanir og ofbeldi. 

Eastman var afburðanemandi í skóla og hóf háskólanám einungis sextán ára gamall en um tvítugt fór að bera á andlegum veikindum hans. Árið 1986 fór móðir hans fram á nálgunarbann gagnvart honum þar sem hann hafði hótað henni líkamsmeiðingum og reynt að brjótast inn á heimili hennar.

Við réttarhöldin í morðmálinu voru lögð fram gögn frá lögreglu sem sýndu að Eastman hafði sex sinnum verið kærður fyrir morðhótanir, 128 kærur fyrir áreiti eða ógnandi símtöl og rúmlega tíu kærur fyrir árásir. 

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert