Vannæring eykst í Bretlandi

Lýðheilsustofa Bretlands telur að verðlagning matvæla hafi aukist um 12% …
Lýðheilsustofa Bretlands telur að verðlagning matvæla hafi aukist um 12% frá 2007 á sama tíma og kjör starfsmanna hafa rýrnað um 7,6%. AFP

Næringarskortur og aðrir líkamlegir kvillar sem tengja má við slæma fæðu hafa færst í aukana í Bretlandi. Þetta staðfestir Lýðheilsustofa Bretlands eftir að lýðheilsukönnun leiddi í ljós að 19% aukning hefur orðið á milli ára meðal þeirra sem leita hjálpar á spítölum vegna vannæringar og annarra einkenna ófullnægjandi fæðu. Þannig hefur fólki sem þarf að leita hjálpar á spítala vegna vannæringar fjölgað úr 5.496 í 6.520 manns það sem af er ári.

Lýðheilsustofa Bretlands telur að verðlagning matvæla hafi aukist um 12% frá 2007 á sama tíma og kjör starfsmanna hafa rýrnað um 7,6%. Því er aukin fátækt og aukning meðal þeirra sem þiggja mataraðstoð mögulegar skýringar á versnandi heilsufari Breta samkvæmt John Middleton, varaforseta Lýðheilsustofu Bretlands. Þá telur hann einnig að ástandið muni halda áfram að fara versnandi á meðan íbúar Bretlands hafa ekki efni á heilsusamlegum mat.

Búðarþjófnaður eykst

Lögreglustjórinn Ron Hogg í Durham á Englandi hefur einnig áhyggjur af ástandinu og telur að sumir verði einfaldlega að brjóta lögin til þess að komast af. Þá bendir hann jafnframt á mikilvægi þess að komast að ástæðu þess hvers vegna glæpum líkt og búðarþjófnaði hafi fjölgað eins mikið og raun ber vitni.

Heilbrigðisráðherra Bretlands, Dan Poulter, hefur aðra skoðun á málinu og telur aukningu á einkennum vannæringar mega að hluta til skýra með betri sjúkdómsgreiningu starfsfólks í heilbrigðisgeiranum. Samt sem áður telur Poulter mikilvægt að draga úr sjúkdómum líkt og vannæringu og öðru tengdu ófullnægjandi matarræði, sérstaklega meðal veikburða einstaklinga og eldri borgara. Þá lagði ráðherrann áherslu á að stjórnvöld Bretlands vildu leggja sitt af mörkum til þess að greiða sem flestum leið til heilbrigðs lífernis og stjórnvöld hygðust leggja mikla fjármuni í verkefni til þess að betrumbæta heilsufar íbúa víðsvegar um Bretland.

Frétt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert