Íhuga loftárásir á Sýrland

Bandarískur hermaður við æfingar í Írak.
Bandarískur hermaður við æfingar í Írak. Wikipedia

Innan stjórnkerfis Breta og Bandaríkjamanna er nú rætt um hvort rétt sé að taka upp samstarf við Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í baráttunni gegn Ríki íslam. Ekki er útilokað að Bandaríkjamenn geri loftárásir á stöðvar ISIS í Sýrlandi.

Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, hefur opinberlega hafnað því að taka upp samstarf við Assad. Hann segir að það sé hvorki skynsamlegt né hjálplegt að gera það. Malcolm Rifkind, fyrrverandi utanríkisráðherra landsins, telur hins vegar rétt að hefja viðræður við Assad. Hann minnir á að í seinni heimstyrjöldinni hafi Roosvelt og Churchill ákveðið að gera bandalag við Stalín gegn Hitler. Það hafi ekki verið vegna þess að þeim hafi líka vel við Stalín heldur hafi slíkt bandalag verið algerlega nauðsynlegt á þeim tíma.

Hermenn Ríkis íslam berjast bæði gegn stjórnvöldum í Írak og Sýrlandi og hafa sýnt ótrúlegt miskunnarleysi í stríðinu. Að flesta mati er hernaður þeirra nú stærsta ógnun við stöðugleika í Mið-Asturlöndum. Forystumenn Ríkis íslam ætla sér að koma á íslömsku ríki Sunni múslima bæði í Írak og Sýrlandi. Írak er stjórnað að stærstum hluta af Shia-múslimum og Assad er alavíti, sem er trúarhópur sem Sunni múslimar fyrirlíta.

Á annað hundruð þúsund manns hafa fallið í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi, en Assad hefur ekki hikað við að beita loftárásum og meira að segja efnavopnum í baráttu við stjórnarandstæðinga. Á síðasta vetri munaði litlu að Bandaríkjamenn hæfu loftárásir á herstöðvar Assads í Sýrlandi eftir ásakanir þess efnis að herinn beitti efnavopnum á óbreytta borgara.

Nú ræða Bandaríkjamenn og Bretar um þann möguleika að fara í einhvers konar bandalag við Assad, en báðir aðilar vilja losna við ISIS. Opinberlega hafa ráðamenn í þessum löndum ekkert sagt um að til greina komi að semja við Assad, en bak við tjöldin er þessi möguleiki ræddur, að því er fram kemur í frétt BBC.

Fjölmiðlar í Bandaríkjum segja ennfremur að stjórnvöld í Bandaríkjunum íhugi að hefja loftárásir bækistöðvar ISIS í Sýrlandi.

Aftakan á bandaríska fréttamanninum James Foley hefur ýtt undir kröfur um að Vesturlönd beiti sér af meira afli í baráttunni gegn Ríki íslam. Lykilatriðið í þeirri baráttu er að mynda samstöðu ríkja á svæðinu gegn Ríki íslam.

Philip Hammond utanríkisráðherra Bretlands.
Philip Hammond utanríkisráðherra Bretlands. LEON NEAL
Bashar al-Assad forseti Sýrlands
Bashar al-Assad forseti Sýrlands -
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert