„Er bara hár, sköllóttur og svartur“

Charles Belk handjárnaður á gangstéttarbrún.
Charles Belk handjárnaður á gangstéttarbrún. Ljósmynd/Facebook.com

Lögregluyfirvöld í Los Angeles hafa beðist afsökunar á handtöku kvikmyndaframleiðandans Charles Belk, en lögregluþjónar töldu hann vera eftirlýstan bankaræningja. Þetta kemur fram í frétt Sky News.

Belk, sem er blökkumaður, var handtekinn síðasta föstudag þegar hann gekk út af veitingastað í Beverly Hills til að borga í stöðumæli, en þar var hann staddur í veislu fyrir Emmy verðlaunahátíðina. Sex lögreglubílar komu aðvífandi, en hann var fluttur í einum þeirra á höfuðstöðvar lögreglunnar þar sem teknar voru af honum myndir og fingraför og hann síðan vistaður í sex klukkustundir. Honum var sleppt úr haldi eftir að upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýndu greinilega að Belk var ekki ræninginn.

Málið hefur vakið mikla athygli, en mynd af Belk sitjandi handjárnuðum á gangstéttarbrún með lögregluþjóna sér við hlið hefur verið deilt yfir 30 þúsund sinnum á Facebook.

Aldrei verið handjárnaður eða handtekinn

Í færslu á Facebook síðu sinni gagnrýnir hann harðlega handtöku á þeim forsendum einum að „lýsingin hafi passað“.

„Ég átta mig á því að lögreglan í Beverly Hills vissi ekki að ég væri löghlýðinn borgari, sem hef aldrei á minni 51 árs löngu ævi verið handjárnaður eða handtekinn. Þeir sáu bara mann sem passaði við lýsinguna. Ég átta mig á því að þeir vissu ekki að ég er vel menntaður Bandaríkjamaður með gráðu í rafmagnsverkfræði, MBA gráðu og leiðtogamenntun frá Harvard háskóla. Ég var bara „hávaxinn, sköllóttur og svartur“, þannig að ég passaði við lýsinguna,“ segir Belk í færslunni.

Belk með Emmy verðlaun.
Belk með Emmy verðlaun. Ljósmynd/Facebook.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert