Tveir nýburar létust úr kíghósta

Mynd af barni úr safni
Mynd af barni úr safni AFP

Sænsk heilbrigðisyfirvöld hveta foreldra til þess að vera vel á verði en tvö ungbörn þar í landi hafi að undanförnu látist úr kíghósta. Þetta kemur fram í frétt Dagens Næringsliv.

Varað er við því að kíghósti sé mun algengari en fólk geri sér grein fyrir og það sem af er ári hefur verið tilkynnt um 195 kíghóstatilvik í Svíþjóð. Börnin sem létust voru bæði innan við mánaðar gömul. Þau höfðu verið fullkomlega heilbrigð við fæðingu og hvorugt þeirra fyrirburi. Eru foreldrar beðnir að fylgjast grannt með heilsu barna sinna og ekki hika við að hafa samband við lækni ef börn þeirra fá kvef. Fullorðið fólk getur verið smitberar án þess að hafa hugmynd um það og því mikilvægt fyrir alla þá sem eru með langvinnt kvef eða hósta að láta kanna málið. Einkum og sér í lagi ef viðkomandi er í samskiptum við börn. Hægt er að lækna kíghósta með sýklalyfjum og eins er bólusett við kíghósta.

Á Vísindavefnum kemur fram að kíghósti (Pertussis) sé alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar, en hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn sem langvarandi og þrálátur hósti. Sýkingin stafar af bakteríu sem framleiðir eiturefni sem veldur slæmum hóstaköstum.

Útbreiðsla sjúkdómsins hefur farið vaxandi síðustu 20 árin og telur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að 20-40 milljónir tilfella komi upp árlega í heiminum og þá aðallega í þróunarlöndum. Á árunum í kringum 1930-1940 létust þúsundir manna af völdum kíghósta en með tilkomu bóluefnis gegn sjúkdómnum hefur dregið mjög úr dánartíðni af völdum hans. Þrátt fyrir góða þátttöku í bólusetningu gegn kíghósta hafa komið upp faraldrar í mörgum löndum hjá fullorðnum og eldri börnum. Ástæðan er sú að verndandi áhrif bólusetningarinnar þverra á nokkrum árum þótt góð vernd sé til staðar hjá bólusettum ungum börnum.

Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum (til dæmis með hnerra). Meðgöngutími sjúkdómsins, það er sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast og þar til sjúkdómseinkenni koma fram, er yfirleitt 2-3 vikur.

Einkenni kíghósta eru í fyrstu vægt kvef, síðan vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar. Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Önnur einkenni eru hnerri, nefrennsli og hiti. Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur. Ungum börnum er sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum sýkingarinnar sem geta verið öndunarstopp, krampar, lungnabólga, truflun á heilastarfsemi og dauði.

Meðferð við kíghósta fer eftir hversu mikill sjúkdómurinn er. Sýklalyf gera lítið gagn, nema mjög snemma á sjúkdómsferlinum. Önnur meðferð lýtur að hvíld, vökvainntekt og næringu. Lítil börn með kíghósta þurfa iðulega að dveljast langtímum saman á sjúkrahúsi.

Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja þau ung því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í um 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Víða erlendis hefur verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu fullorðinna en hér á landi hefur einungis verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu heilbrigðisstarfsmanna,“ segir á Vísindavefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert