Víðtæk leit að fársjúku barni

Breska lögreglan hefur dreift myndum af drengnum, Ashya King, á …
Breska lögreglan hefur dreift myndum af drengnum, Ashya King, á samfélagsmiðlum í þeirri von að hann finnist sem fyrst. Breska lögreglan á Twitter

Breska og franska lögreglan leitar nú fimm ára drengs sem er með heilaæxli og var tekinn án heimildar af sjúkrahúsi í Southampton. Það voru foreldrar hans sem sóttu hann á sjúkrahúsið og er óttast um líf drengsins en hann þarfnast stöðugrar umönnunar.

Samkvæmt fréttum breskra fjölmiðla lá Ashya King á aðalsjúkrahúsinu í Southampton þegar foreldrar hans sóttu hann í gær og fóru með hann án heimildar frá starfsmönnum sjúkrahússins. Talið er að þau hafi farið með hann yfir til Frakklands ásamt sex systkinum hans.

BBC hefur eftir lögreglunni að óttast sé um líf drengsins komist hann ekki undir læknishendur í dag. Talið er að fjölskyldan hafi tekið ferju yfir Ermarsundið í Portsmouth klukkan 16 í gær og komið til hafnar í Cherbourg klukkan 20. 

Lögregla segir að Ashya, sem fór í stóra aðgerð fyrir stuttu, geti ekki tjáð sig með orðum og sé lamaður. Því sé hann líklega í hjólastól eða kerru.

Birtar hafa verið myndir af föður drengsins fara út með hann af sjúkrahúsinu í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert