Flestum námuverkamönnum bjargað

Búið er að koma flestum til bjargar sem voru að störfum í gullnámu í Níkaragva þegar náman gaf sig. Carlos Najjar, innanríkisráðherra landsins, segir að mennirnir hafi liðið minniháttar vökvaskort en að öðru leyti sé heilsufar þeirra gott.

Yfirvöld segja að búið sé að bjarga 20 verkamönnum en fimm sé enn saknað. 

Þeir voru að störfum í El Comal-námunni þegar námugöng hrundu í kjölfar mikillar úrkomu á fimmtudag. Náman liggur skammt frá bænum Bonanza sem er um 420 km norðaustur af Managva, höfuðborg landsins. 

Mennirnir vinna ekki fyrir ákveðið námufyrirtæki heldur starfa þeir í lausamennsku.

Kólumbíska fyrirtækið Hemco á námuna. Talsmenn þess segja að þeir hafi nýverið komist að því að öryggi væri ábótavant í námunni og þeir hafi varað námuverkamennina við eftir að tveir menn létust í aurskriðu í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert