Flúði heimalandið vegna valdaráns

Tomas Thabane, forsætisráðherra Lesótó, er flúinn til S-Afríku.
Tomas Thabane, forsætisráðherra Lesótó, er flúinn til S-Afríku. AFP

Forsætisráðherra Lesótó hefur flúið til Suður-Afríku. Hann segir að herinn hafi framið valdarán í landinu og að líf hans sé í hættu.

Thomas Thabane, forsætisráðherra Lesótó, segir í samtali við breska ríkisútvarpið, að hann muni snúa aftur til heimalandsins um leið og hann verður fullvissaður um að hann verði ekki myrtur.

Hermenn eru sagðir hafa náð byggingum á sitt vald í höfuðborginni Maseru. Þar ríkir nú ró en talsmenn hersins vísa því á bug að verið sé að fremja valdarán. 

Lesótó, sem er umkringt S-Afríku, fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1966. Síðan þá hefur herinn rænt nokkrum sinnum völdum. 

Thabane hefur stýrt samsteypustjórn en deilur við samstarfsflokka varð til þess að hann leysti upp þingið í júní. Thabane neitar því að aðgerðir hans hafi grafið undan ríkisstjórninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert