Eigandi sekur um manndráp hunda sinna

Alex Jackson
Alex Jackson LOS ANGELES COUNTY SHERIFF’S DEPARTMENT

Hundaeigandi nokkur, 31 árs gamli Alex Jackson, var fundinn sekur um manndráp síðastliðinn föstudag, en fjórir hundar hans réðust á 63 ára gömlu Pamelu Devitt og bitu hana til bana í maí á síðasta ári. 

Jackson getur átt yfir höfði sér allt frá 24 árum til lífstíðarfangelsis þegar hann verður dæmdur þann 3. október næstkomandi. Þetta kemur fram á fréttaveitunni CBS news.

Bitu hana yfir 200 sinnum

Devitt var í morgungöngu í eyðimerkurbænum Littlerock í Californíuríki í Bandaríkjunum, þegar fjórir hundar af gerðinni pit bull réðust á hana. Hún var bitin yfir 200 sinnum, en hundarnir drógu hana um 50 metra vegalengd, rifu af henni höfuðleðrið og bitu af henni annan handlegginn.

Saksóknarar sögðu Jackson ekki einungis hafa sýnt mikið gáleysi, heldur hafi hann einnig vitað að hundarnir gætu ógnað lífi fólks. Þeir sýndu fram á að hundarnir hefðu að minnsta kosti sjö sinnum ógnað fólki á síðustu 18 mánuðunum fyrir árásina á Devitt.

Nokkrir hestamenn sögðu hundana hafa elt sig og bitið, nágranni sagði hundana hafa ráðist inn í garð sinn og bréfberi sagðist ekki geta komið nálægt húsi Jackson vegna hundanna.

Sjaldgæft að eigendur séu dæmdir

The National Canine Research Council áætlar að um 30 manns séu drepnir af hundum á ári hverju. Mjög sjaldgæft er að eigendur séu dæmdir í slíkum málum, enda þurfa saksóknarar að sanna að hundarnir hafi verið hættulegir fyrir morðið.

Jackson vitnaði í málinu og sagðist hafa verið ómeðvitaður um flest þessara atvika. Hann sagði að ef hann hefði vitað að hundarnir gætu drepið einhvern hefði hann losað sig við þá. „Mér líður hræðilega yfir þessu. Þetta er ekki eitthvað sem ég planaði og vildi að myndi gerast,“ sagði hann.

Dýraeftirlitsmenn sem komu að heimili Jackson stuttu eftir árásina vitnuðu í málinu og sögðu hann hafa sagt, „Ef þið komið nálægt mér, þá komið þið inn í ljónagryfju.“

Eiginmaður fórnarlambsins, Ben Devitt, sagðist vilja Jackson dæmdan sekan, „svo það setji fordæmi og geri fólki betur grein fyrir því að hundarnir þeirra geta skapað hættulegar aðstæður.“

Pamela Devitt
Pamela Devitt HOPD /AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert