Hvattir til að eiga nægan salernispappír

AFP

Japönsk stjórnvöld hafa hvatt almenning í Japan til þess að eiga nóg af salernispappír að staðaldri með þeim rökum að rúmlega 40% af framleiðslu landsins á vörunni komi frá borginni Shizuoka í miðhluta landsins sem sé í mikilli hættu að verða fyrir jarðskjálftum.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að hvatningin sé í tengslum við árlegan þjóðaröryggisdag í Japan sem fram fer 1. september ár hvert til minningar um stóran jarðskjálfta sem reið yfir landið árið 1923 og varð 140 þúsund manns að bana.

Toshiyuki Hashimoto, embættismaður iðnaðarráðuneytisins, varaði fólk við því að japanska þjóðin gæti orðið uppiskroppa með salernispappír ef jarðskjálfti yrði á umræddu svæði. Fram kemur í fréttinni að sú hafi orðið raunin í kjölfar jarðskjálftans í mars 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert