Þjóðernishreinsanir í Írak

Mannréttindasamtökin Amnesty International segjast vera með ný gögn sem sýni og sanni að liðsmenn skæruliðahreyfingarinnar Ríki íslam stundi þjóðernishreinsanir á minnihlutahópum í norðurhluta Íraks.

Segja mannréttindasamtökin að Ríki íslam hafi breytt norðurhluta landsins í blóði drifinn vígvöll.

Í frétt BBC kemur fram að skæruliðar úr hópi íraksra sjía-múlíma og kúrdískir hermenn hafi brotið á bak aftur tveggja mánaða umsátur Ríkis íslam í bænum Amerli en Ríki íslam og skæruliðar úr hópi súnní-múslíma hafa náð yfirráðum yfir stórum hluta Íraks og Sýrlands.

Amerli er byggður  Túrkmenum, þjóðarbroti sem skylt er Tyrkjum og aðhyllist sjía-íslam. Þar voru um 17.000 manns einangraðir.

Þúsundir íbúa Íraks liggja í valnum og yfir milljón óbreyttra borgara hefur þurft að flýja heimili sín undanfarna mánuði.

Samkvæmt Amnesty eru sönnunargögn til um blóðbaðið í Sinjar-héraði í Írak í ágúst. Blóðbaðið var skelfilegt, einkum og sér í lagi 3. ágúst og 15. ágúst þegar liðsmenn Ríkis íslam fóru á milli þorpa í héraðinu, rændu og rupluðu og myrtu hundruð íbúa þeirra.

Hópur karla og drengja, allt niður í tólf ára aldurr, var tekinn til fanga af Ríki íslam og síðan skotinn til bana, samkvæmt Amnesty.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert