93 ára ákærður fyrir stríðsglæpi í Auschwitz

Fáni nasista.
Fáni nasista. AFP

93 ára Þjóðverji hefur verið ákærður fyrir sinn þátt í dauða þeirra 300 þúsund manna sem sem myrtir voru í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz í síðari heimsstyrjöldinni.

Um 425 þúsund manns voru vistaðir í Auschwitz í síðari heimsstyrjöldinni. Hlutverk hins ákærða í fangabúðunum var að fjarlægja eigur fólks af lestarpalli þar sem komið var með fólk í fangabúðirnar. Fór hann í gegnum föggur fólks í leit að verðmætum sem hann kom færði yfirvöldum SS-sveitanna.  

Saksóknari segir að hinn ákærði hafi mátt vita að þeir sem ekki voru vinnufærir yrðu sendir í gasklefann. Þar af leiðandi væri hann samsekur um morðin.

Maðurinn er sá þrítugasti sem ákærður hefur verið fyrir stríðsglæpi í seinni heimsstyrjöldinn í Þýskalandi á liðnum árum.

Eru ákærurnar liður í átaki sem sett var á fót árið 2011 um að hafa upp á þeim sem tóku þátt í helförinni.

Til ársins 2011 höfðu rannsóknir beinst að mönnum sem taldir eru hafa átt beinan þátt í morðunum. Breyting varð á það ár þegar John Demjanjuk var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar. Hann var fangavörður í Sobibor fangabúðunum.

The Local segir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert