Heita skoska þinginu auknum völdum

Leiðtogar þriggja stærstu stjórnmálaflokka Bretlands sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þeir heita því að skoska þingið fái aukin völd hafni Skotar sjálfstæði í kosningunni sem fram fer á fimmtudag. Leiðtogarnir róa nú að því öllum árum að Skotland verði áfram hluti af Bretlandi.

Loforðið birtist á forsíðu skoska dagblaðsins Daily Record í dag með yfirskriftinni „Heitið“ (e. The Vow) með undirskriftum og myndum af David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, Nick Clegg aðstoðarforsætisráðherra og Ed Miliband, leiðtoga Verkamannaflokksins.

Þeir segja að íbúar Skotlands vilji sjá breytingar. Leiðtogarnir heita því að það muni leiða til jákvæðra breytinga segi Skotar nei í atkvæðagreiðslunni og hafni þar með aðskilnaði. 

Alex Salmond, leiðtogi sjálfstæðissins, segir að yfirlýsing leiðtoganna sem örvæntingarfull tilraun á síðustu stundu til að bjóða Skotum upp á orðin tóm.

Hann segir Skota standa frammi fyrir gríðarlega stóru tækifæri. Hann segir að framtíð landsins verði í höndum Skota kjósi þeir með sjálfstæði á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert