Hermenn sendir vegna ebólu

Ebóla hefur dregið rúmlega 2000 manns til dauða.
Ebóla hefur dregið rúmlega 2000 manns til dauða. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að til standi að senda um þrjú þúsund hermenn að Vestur-Afríku til að berjast gegn útbreiðslu ebóluveirunnar.  Þá eigi að verja miklum fjármunum í að hefta útbreiðsluna í alþjóðlegum aðgerðum sem séu fordæmalausar. 

Fram kemur í Time magazine að áætlað sé að verja um hálfum milljarði bandaríkjadala til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar.

Obama er sagður hafa sagt við embættismenn að veiran væri ógn við öryggi þjóðarinnar og að leiðin til að berjast gegn ógninni væri alþjóðlegt átak. Meira en 100 fulltrúar frá Sjúkdómavörnum Bandaríkjanna hafa verið sendir til Afríku og fleiri eru á leiðinni.

Auk þess að verja um hálfum milljarði dollara hefur Obama biðlað til þingsins um 58 milljónir dollara til að þróa frekar tilraunalyf til meðferðar við sjúkdómnum.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur að auki sent um 130 þúsund andlitsgrímur á þau svæði í Vestur-Afríku þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp. Þá hefur Afríkuráðið einnig staðið fyrir því að settar hafa verið upp meðferðarstöðvar þar sem fólk sem fær sýkingu getur fengið meðhöndlun.

Höfuðstöðvar aðgerðanna verður í Monroviu í Líberíu þar sem flest tilfelli hafa komið upp og útbreiðslan hefur verið mest.

Aðgerðir Bandaríkjamanna eru liður í því að svara kalli Alþjóða heilbrigðisstofnunurinnar. Tilkynnt var í síðustu viku að staðfest tala smitaðra sé kominn í 4.366. Þar af hafa 2.218 látist vegna sjúkdómsins.

Tíðni nýrra smita hefur vaxið og fréttaskýrendur líta á beiðni Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar  sem staðfestingu þess að ekki hafi verið gert nægilega mikið til að hefta útbreiðsluna. Raunveruleg hætta sé á því að allsherjar faraldur breiðist út.  

Búist er við því að þúsundir nýrra smita muni koma fram á næstu vikum og mánuðum. „Ef við bregðumst ekki við núna mun faraldurinn breiðast út, ekki bara um Afríku, heldur um allan heim. Spár gera ráð fyrir því að veiran muni stökkbreytast,” segir Obama og bætir því við að hún verði í kjölfarið bráðsmitandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert