2.811 látnir af völdum ebólu

Yfir 2.800 hafa látist af völdum ebólu í Vestur-Afríku.
Yfir 2.800 hafa látist af völdum ebólu í Vestur-Afríku. AFP

Alls hafa 2.811 látist af völdum ebólufaraldursins í Vestur-Afríku að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), en þetta er mannskæðasti ebólufaraldur í sögunni. WHO segir aftur á móti að tekist hafi hefta útbreiðslu sjúkdómsins í Senegal og í Nígeríu.

Stofnunin segir að alls hafi 5.864 smitast af ebólu í fimm ríkjum í Vestur-Afríku til og með 18. september. 

Þann 14. september birti WHO síðast dánaryfirlit, en þá hafði sjúkdómurinn dregið 2.630 til dauða. Á fjórum dögum féll því 181.

Flestir hafa smitast í Gíneu, þar sem ebólufaraldurinn hófst í byrjun þessa árs, og í nágrannaríkjunum Líberíu og Síerra Leone. Ástandið er verst í Líberíu en þar hafa 3.022 smitast og þar af hafa 1.578 látið lífið. 

Á Íslandi hafa verið gerðar víðtækar viðbragsáætlanir við ebólu ef svo ólíklega vildi til að sjúkdómurinn bærist hingað til lands.

Sóttvarnalæknir hefur áður hvatt til þess að einstaklingar ferðist ekki að nauðsynjalausu til Gíneu, Síerra Leone eða Líberíu og hvetur alla ferðamenn til að forðast snertingu við veika eða látna einstaklinga, veik eða látin villt dýr og forðast neyslu á illa elduðum mat, einkum á villtum dýrum.

Einnig eru ferðamenn hvattir til að gæta vel að hreinlæti þ.e. handþvotti með sápu og notkunar handspritts, að því er segir á vef landlæknisembættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert