Árás gerð á Sýrland

Mynd úr myndskeiðinu frá Jund al-Khilifa þar sem franski ferðamaðurinn …
Mynd úr myndskeiðinu frá Jund al-Khilifa þar sem franski ferðamaðurinn Herve Pierre Gourdel sést en honum var rænt af hryðjuverkasamtökunum AFP

Bandaríkin og bandamenn þeirra hófu loftárásir gegn liðsmönnum samtakanna Ríki íslam í nótt en þetta er í fyrsta skipti síðan borgarastyrjöldin hófst í Sýrlandi að Bandaríkin taka beinan þátt í hernaðaraðgerðum þar.

Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla taka fimm arabísk ríki þátt í árásunum en um sameiginlega aðgerð er að ræða í baráttunni gegn Ríki íslam, samtökum sem hafa lagt undir sig stórt landsvæði í Írak og Sýrlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá mannúðarsamtökum féllu yfir tuttugu skæruliðar í loftárásunum sem gerðar voru á Raqa héraði. Tvennar búðir Ríkis íslam voru gjöreyðilagðar í loftárásunum í nótt.

Árásin var gerð í nótt þrátt fyrir að alsírsk hryðjuverkasamtök, sem tengjast Ríki íslam, hafi hótað því að myrða franskan gísl ef stjórnvöld í Frakklandi kæmu ekki í veg fyrir slíkar hernaðaraðgerðir gegn Ríki íslam.

Stjórnvöld í Washington hafa verið treg til þess að blanda sér inn í stríðið í Sýrlandi en eftir að samtökunum Ríki íslam fór að vaxa fiskur um hrygg með þeim afleiðingum að tugir þúsunda Sýrlendinga hafa neyðst til þess að flýja yfir til Tyrklands fóru afskipti Bandaríkjamanna vaxandi. Samkvæmt AFP skipti þar einnig máli að óttast er að máttur samtakanna sé orðinn svo mikill að ekki sé hægt að útiloka árásir þeirra á Evrópu eða Bandaríkin.

20 árásir í nótt

Í nótt tilkynnti talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins um árás Bandaríkjahers og bandamanna þeirra á búðir samtakanna. Alls voru gerðar 20 loftárásir í norðurhluta Sýrlands, samkvæmt upplýsingum frá mannúðarsamtökunum Syrian Observatory for Human Rights.

AFP fréttastofan hefur ekki fengið staðfest hvaða ríki taka þátt í aðgerðunum en samkvæmt ABC fréttastofunni eru það Barein, Jórdanía, Katar, Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Stjórnvöld í Sýrlandi hafa staðfest að hafa verið upplýst um fyrirhugaðar árásir af stjórnvöldum í Washington.

Í gærkvöldi birtu alsírsku hryðjuverkasamtökin Jund al-Khilifa (hermenn kalífadæmisins) myndskeið þar sem franskur gísl, Hervé Pierre Gourdel sést sitja á hækjum sér og tveir grímuklæddir menn beina að honum rifflum. Í myndskeiðinu gefa samtökin frönskum stjórnvöldum einn sólarhring til þess að stöðva loftárásir á Írak að öðrum kosti verði gíslinn tekinn af lífi.

Tæpar tvær vikur eru síðan Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hótaði því að Bandaríkin myndu gera árás á Sýrland. Þann 10. september sagði hann í ávarpi til þjóðar sinnar að bandarísk yfirvöld myndu ekki gefast upp gegn hryðjuverkasamtökunum og liðsmenn þeirra yrðu eltir uppi hvar sem þeir reyndu að leynast. Það sé í fyrirrúmi í hans forsetatíð að ef einhver ógnar Bandaríkjunum muni sá hinn sami hvergi finna öruggt skjól.

Bandaríkjaher hóf loftárásir á búðir Ríki íslam í Írak þann 8. ágúst sl. og alls hafa verið gerðar um 190 loftárásir á búðir þeirra þar. Alls eru um fimmtíu ríki í bandalagi með Bandaríkjamönnum gegn hryðjuverkasamtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert