Gleði á götum Hong Kong

Tugir þúsunda mótmælenda halda nú gleðskap á götum úti í Hong Kong, tæpum sólarhring eftir að óeirðalögregla skaut táragasi yfir mannfjöldann. Lögreglan hefur dregið sig til hlés og stjórna mótmælendur nú fjórum stórum umferðaræðum um borgina.

Regnhlífabyltingin

Í gærkvöldi réðist óeirðalögreglan að mannfjöldanum með kylfum og táragasi og reyndist nóttin mótmælendum þungbær. Í dag mátti hinsvegar heyra kantónska popptónlist á götum úti, mótmælendur reistu eftirmynd af styttunni „gyðju lýðræðisins“ og skreyttu ljósastaura með gulum borðum. Gulu borðarnir eru eitt af táknum byltingarinnar sem hefur verið kölluð regnhlífabyltingin en mótmælendur hafa notað regnhlífar til að verja sig gegn sólinni á daginn og táragasi á kvöldin.

Það var svo í kvöld að óeirðarlögreglan tók að hörfa og skildu mótmælendur eftir óafskipta á að minnsta kosti fjórum stórum umferðaræðum um borgina sem mannfjöldinn hefur tekið yfir. Það er því sigurbragur yfir mörgum mótmælenda en aðrir eru ekki jafn fljótir að fagna enda séu kínversk yfirvöld óútreiknanleg.

Mótmælendurnir, sem tekið hafa yfir fjármálahverfi borgarinnar síðastliðna daga, fara fram á að Kínversk yfirvöld láti af áætlunum sínum um að stýra því hverjir megi bjóða sig fram í leiðtogakosningum Hong Kong árið 2017.

Í myndbandinu hér að ofan má sjá lögreglu skjóta táragasi á mótmælendur í gærkvöldi. Viðmælendur AFP eru þó ekki af baki dottnir og segja nauðsynlegt að berjast fyrir frelsi sínu og heimalandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert