Fluttu ljón frá Gaza til Jórdaníu

Þrjú ljón voru flutt frá dýragarði í Gaza til Jórdan í dag. Dýragarðurinn sem ljónin bjuggu í varð fyrir gríðarlegum skemmdum í árásum Ísraelshers í sumar. 

Austurrískir dýralæknar frá alþjóðlegu dýrasamtökunum Four Paws stjórnuðu aðgerðum er ljónin voru flutt á milli. Fengu samtökin sérstök leyfi til þess að fara með ljónin í gegnum ísraelskt landsvæði.

Amir Khali, sem starfar fyrir Four Paws sagði að dýrin, tvö ljón og ein ljónynja þyrftu nauðsynlega hjálp eftir að heimili þeirra varð fyrir loftárásum.

„Dýrin voru stressuð, ofbeldishneigð og hrædd við alla hreyfingu,“ sagði hann. „Dýr eru mjög viðkvæm og það er augljóst að loftárásirnar og sprengingarnar hafi haft mikil áhrif á þau.“

Ein ljónynja drapst í loftárásum Ísraelshers á dýragarðinn. Hin þrjú eru nú öll farin til Jórdaníu.

Khalil sagði að dýralæknar hafi nú sinnt þeim dýrum sem lifðu árásirnar af og munu vera áfram á Gaza. Þau þjást þó af matar- og vatnsskorti.

Stjórn dýragarðsins vonast eftir því að hægt verði að endurreisa híbýli ljónanna svo að þau geti snúið aftur heim til Gaza. Þó hefur engin dagsetning verið nefnd í því samhengi.

Dýragarðurinn er í borginni Al-Bisan og var reistur af Hamas árið 2008. Var hann hannaður sem garður fyrir ferðamenn og hugsað sem upplyfting fyrir fólk eftir átök á svæðinu. Dýrunum var smyglað í gegnum göng sem tengdu Egyptaland og Gaza. Þeim göngum var lokað á síðasta ári.

Ýmis samtök hafa lýst yfir áhyggjum vegna dýranna í garðinum vegna aðstæðna á Gaza þar sem vatn, matur og læknar eru af skornum skammti. Í fyrra drápust tveir ljónsungar stuttu eftir fæðingu vegna skorts á mat, lyfjum og læknum.

AFP
Ljónin bíða í búrum sínum eftir því að ferðalagið til …
Ljónin bíða í búrum sínum eftir því að ferðalagið til Jórdan hefjist. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert