Létu sprengjum rigna yfir ISIS

Bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B1 Lancer tekur bensín á flugi …
Bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B1 Lancer tekur bensín á flugi eftir að hafa gert árás á ISIS. AFP

Bandarískar orrustuflugvélar gerðu fjölmargar loftárásir á vígamenn samtaka ISIS, Ríkis íslam innan landamæra Íraks og Sýrlands í dag. Meðal skotmarka voru sveitir vígamanna sem staðsettar eru nærri landamærum Tyrklands. Greint er frá þessu á fréttaveitu AFP.

Á sama tíma og hersveitir Kúrda hófu sókn sína gegn vígamönnum ISIS vörpuðu orrustuflugvélar Bandaríkjahers sprengjum sínum á þá. Var með atlögunni vonast til þess að endurheimta landsvæði innan Íraks sem fallið hafði í hendur öfgasveitanna í síðasta mánuði.  

Breskar herflugvélar tóku einnig þátt í aðgerðum dagsins. Samkvæmt upplýsingum frá breska varnarmálaráðuneytinu tókst flugmönnum þeirra að eyða vopnageymslu og bifreið með áfastri vélbyssu. Eru þetta fyrstu loftárásir breskra sveita sem beint er gegn ISIS samtökunum í Írak.

Samtökin hafa nú lagt undir sig stór landsvæði innan landamæra Íraks og Sýrlands og hefur svokallað kalífat verið þar stofnað. Allt frá dauða Múhameðs spámanns á 7. öld hafa íslömsk kalíföt verið við lýði. Síðasta kalífatið leið undir lok árið 1924, en þá var um að ræða kalífat Ottómana. Stofnun kalífats hefur allar götur síðan verið markmið herskárra súnní-múslima í Mið-Austurlöndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert