„Mun aldrei koma fyrir aftur“

Hvíta húsið í Washington DC.
Hvíta húsið í Washington DC. AFP

Julia Pierson, framkvæmdastjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna, segist taka fulla ábyrgð á því þegar maður ruddi sér leið inn í Hvíta húsið eftir að hafa stokkið yfir öryggisgirðingu sem umlykur hús Bandaríkjaforseta. Staðfest hefur verið að maðurinn var vopnaður hnífi.

Maðurinn sem umræðir heitir Omar J. Gonzalez og náði hann að yfirbuga kvenkyns leyniþjónustumann við norðurinngang Hvíta hússins skömmu áður en hann ruddi sér leið inn í sjálfa bygginguna. Hljóp hann því næst inn í hið svokallað austur-herbergi Hvíta hússins áður en hann var loks yfirbugaður þar sem hann reyndi að brjóta sér leið inn í græna-herbergið. 

Segir frá þessu á vefsíðu New York Times.

„Atvik þetta er óásættanlegt og það mun aldrei koma fyrir aftur,“ sagði Pierson þar sem hún sat á fundi þingmannanefndar Bandaríkjaþings í dag. Verður nú málið tekið til skoðunar svo koma megi í veg fyrir sambærileg tilvik.  

Fundinn sátu m.a. fulltrúar demókrata og repúblikana sem sæti eiga á þingi. Gáfu þeir sterklega til kynna í máli sínu að vandi leyniþjónustunnar, sem ábyrgð ber á öryggi forsetans og fjölskyldu hans, sé ekki einskoraður við þetta tiltekna atvik. Telja þeir stjórnun stofnunarinnar hafa verið ábótavant allt frá því í mars á síðasta ári þegar Pierson tók við embætti.

Að sögn Pierson hefur leyniþjónustan þurft að takast á við allnokkrar áskoranir undanfarin ár. „Sumar þeirra hafa komið upp undir minni stjórn en aðrar fyrir minn tíma. Nýlegasta dæmið er þetta tiltekna atvik,“ sagði hún á fundinum. Hét framkvæmdastjórinn því að takast á við þann vanda sem steðjar að stofnuninni svo leyniþjónustan geti staðið undir þeim skyldum og verkefnum sem að henni snúa.

Pierson kveðst vera áhyggjufull yfir þeirri staðreynd að Gonzalez hafi tekist að koma sér hjá vörnum Hvíta hússins. Í viðtali við New York Times í síðust viku sagði hún það óásættanlegt að Gonzalez hafi tekist að komast alla leiðina að norðurinngangi hússins. Í sama viðtali minntist hún hins vegar ekki á að maðurinn hafi komist mun lengra inn í bygginguna, yfirbugað leyniþjónustumann inni í húsi forsetans, hlaupið í gegnum austur-herbergið og verið loks stöðvaður þar sem hann reyndi að brjóta sér leið inn í græna-herbergið.   

Á fundinum kom ennfremur fram að á síðustu 5 árum hafa alls 16 einstaklingar verið handteknir á lóð Hvíta hússins eftir að hafa stokkið yfir öryggisgirðinguna. Af þeim hafa sex verið handteknir á þessu ári.

Frétt mbl.is: Ruddist langt inn í Hvíta húsið

Frétt mbl.is: Komst langleiðina í Hvíta húsið

Julia Pierson, framkvæmdastjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna, við upphaf fundar.
Julia Pierson, framkvæmdastjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna, við upphaf fundar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert