Ofbeldið á sér engin takmörk

Börn sem hafa upplifað stríðshörmungar líkt og flest sýrlensk börn …
Börn sem hafa upplifað stríðshörmungar líkt og flest sýrlensk börn hafa gert munu væntanlega glíma við sár á sálinni það sem þau eiga eftir ólifað. AFP

Nauðganir, morð og pyntingar hafa verið nánast daglegt brauð í lífi íbúa sýrlensku borgarinnar Raqqa undanfarin misseri. Ríki íslam hafa ráðið yfir borginni í á annað ár en liðsmenn samtakanna margir flúið hana í kjölfar loftárása Bandaríkjahers. En íbúarnir flýja líka enda aðstæður þar skelfilegar.

Það getur verið erfitt fyrir fólk að ímynda sér að borgin, sem á sér 2.300 ára langa sögu, eigi eftir að ná sér á strik eftir þær hörmungar sem hafa dunið á íbúum hennar undanfarin ár. Á fyrri helmingi síðasta árs náðu skæruliðar yfirráðum yfir borginni og tóku saria-lög gildi í kjölfarið. 

Líkt og annars staðar þar sem Ríki íslam hefur náð yfirráðum er engum eirt sem ekki deilir með þeim skoðunum. Skiptir þar engu hvort viðkomandi sé kristinn eða mús­lím­i. Skólum var lokið í borginni og börnum gert að horfa á aftökur. Til þess að auka enn á kúgunina hefur konum og stúlkum, allt niður í níu ára, verið nauðgað og misþyrmt á ýmsan hátt. 

Voðaverkin sem framin hafa verið í borginni eru þannig að að það er erfitt fyrir þá sem hafa þurft að upplifa eða verða vitni að lýsa þeim fyrir vestrænum fjölmiðlum. Enda getur líf viðkomandi verið í hættu og sumir atburðir eru einfaldlega þannig að fólk vill gleyma þeim. 

Aftökur á torgum borgarinnar

Íbúi í Raqqa sem Berlingske ræðir við lýsir því fyrir blaðamanni hvernig besti vinur hans var hálshöggvinn á torgi strax að loknum föstudagsbænum ásamt fleirum. Þegar aftökunum var lokið tóku böðlarnir höfuð mannanna og réttu þeim sem stóðu og horfðu hljóðir á, meðal annars börn. „Svo stóðu þau þarna með blóðug höfuð í höndunum,“ segir maðurinn sem hefur á þeim rúmum þremur árum sem borgarastyrjöldin hefur geisað í heimalandi hans upplifað slíkar hörmungar að erfitt er að ímynda sér að gjöful fósturjörð hans eigi eftir að jafna sig á ný.

Líkt og Bogi Þór Arason bendir á í grein í Morgunblaðinu sl. laugardag hefur ofbeldi vígasveita íslamistanna í Sýrlandi og Írak einkennst af skefjalausri grimmd. Vígamennirnir hafa herjað á aðra trúarhópa, svo sem kristna menn og sjíta og jafnvel súnníta sem sætta sig ekki við túlkun þeirra á boðskap Múhameðs spámanns. Vígasveitirnar hafa framið fjöldamorð, pyntað og hálshöggvið fólk og tugum þúsunda „trúleysingja“ hefur verið stökkt á flótta. Þeir sem ekki vilja ganga til liðs við þá eða viðurkenna ekki kenningar þeirra eru álitnir réttdræpir óvinir.

Leiðtogar Ríkis íslams líta jafnvel á aðra íslamista sem villutrúarmenn og þar með óvini sína. Til að mynda hatast þeir við leiðtoga Hamas-samtaka Palestínumanna sem stefna að því að stofna íslamskt ríki í allri Palestínu. Þeir telja leiðtoga Hamas verðskulda dauðarefsingu vegna þess að þeir sömdu um vopnahlé við Ísraela.

Það er hins vegar ólíklegt að forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, taki undir þetta ef marka má ræðu hans hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem hann sagði Ríki íslam vera af sama meiði Hamas, samkvæmt frétt New York Times.

Fólk frá Raqqa sem NPR ræddi við í Tyrklandi hefur ekki trú á því að loftárásir Bandaríkjahers og bandamanna verði til þess að Ríki íslam tapi völdunum í borginni eða annars staðar í Sýrlandi. Það eitt að Bandaríkjamenn hafi gert árás á Sýrland og Írak valdi því að liðsmönnum Ríki íslam fjölgar hratt enda eiga Bandaríkin sér marga óvini í heiminum.

Þú brýtur ekki reykingabann í fimmta skiptið

Samkvæmt NPR koma liðsmenn samtakanna víða að. Til að mynda er það Túnisbúi sem stýrir fjarskiptanetinu. Egypskur verkfræðingur er ráðherra olíumála og svo eru sömu Sýrlendingarnir og áður í mörgum stjórnunarstöðum. Eina breytingin er sú að það er Ríki íslam sem greiðir þeim launin ekki ríkisstjórn landsins.

Harðar reglur gilda um ýmis atriði þar sem samtökin Ríki íslam eru við stjórnvölinn. Má þar nefna algjört áfengis- og reykingabann. Íbúinn sem Berlingske ræddi við segir að ef þú sést reykja þá eru sígaretturnar eyðilagðar. Í annað skiptið sem þú ert tekinn með tóbak þarftu að greiða háa sekt, í þriðja skiptið er bílinn þinn tekinn og ef þú ert tekinn í fjórða skiptið þá er öruggt að það verður ekkert fimmta skipti.

Konur og karlar eiga helst aldrei að eiga samskipti fyrir utan heimilin. Til að mynda var kona, sem er tannlæknir, drepin fyrir að sinna tannheilsu karlmanns. Eins verða konur að hylja sig frá toppi til táar og einungis má sjást í augu þeirra. Karlar þurfa að biðja fimm sinnum á sólarhring og svo mætti lengi telja.

Ekkert annað í boði en að deyja

Fréttamenn BBC segja að eyðilegging blasi alls staðar við og í miðborginni eru sjúkrahúsin rústir einar. Í úthverfum eru sjúkrahúsin einungis ætluð liðsmönnum Ríki íslam og því fátt annað fyrir þá sem þurfa lífsnauðsynlega á læknishjálp að halda - en að deyja. 

„Fólk er mjög hrætt og það veit ekki hvað mun gerast á morgun,“ segir Abu Ibrahim Raqqawi, sem nýlega flúði heimaborg sína. Hann ásamt félögum sínum hafa sett á laggirnar vef Raqqa Is Being Slaughtered Silently þar sem þeir fjalla um lífið í Raqqa frá því Ríki íslam náði völdum í borginni í fyrra. 

Fólk örmagna á líkama og sál

Abu Ibrahim segir að þrátt fyrir að fjölmargir hafi flúið þá séu enn margir borgarbúar enn í Raqqa enda loftárásir ekki nýlunda þar. Því þrátt fyrir að Bandaríkjaher sé tiltölulega nýbyrjaður að skjóta á borgina þá hefur sýrlenski herinn ítrekað varpað sprengjum á hana.

Margir hafa einfaldlega gefist upp - hver svo sem ástæðan er hjá hverjum og einum - og sætta sig við það hvernig daglegt líf borgarbúa er nú. Borgarastyrjöld í þrjú og hálft ár tekur sinn toll og skilur fólk eftir örmagna á líkama og sál. 

Börnin átu samlokur og fylgdust með aftökum

„Sumir fóru þangað og tóku upp myndskeið á síma síma. Aðrir mættu með börnin sín og létu þau horfa á,“ segir hún í samtali við NPR.

Hún lýsir með hryllingi þeirri sýn sem blasti einn sinn við henni; móðir að gefa þremur börnum sínum samlokur að borða á torgi bæjarins þar sem skæruliðar sýndu gestum og gangandi afhöggin höfuð fólks sem þeir höfðu tekið af lífi skömmu áður. „Ég veit það ekki. Þau eru byrjuð að venjast þessu,“ segir hún og vísar þar til barnanna í borginni.

Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum berjast um 30 þúsund manns með Ríki íslam. En það eru menn þar á meðal sem eru þar ekki af fúsum og frjálsum vilja. NPR ræddi við einn þeirra sem náði að flýja.

„ISIS vill drepa alla þá sem neita,“ segir hann og bætir við „það verða allir að taka þátt.“

Ef þú snýrð baki við samtökin þá ertu drepinn

Fréttamaður NPR ræddi við hann á tyrknesku kaffihúsi nokkrum vikum eftir að honum tókst að flýja samtökin. Fyrir nokkrum vikum barðist hann fyrir ISIS í Deir Ezzor héraði í austurhluta Sýrlands. Hann rakaði sítt skegg sitt fljótlega eftir að hann komst yfir landamærin til þess að þekkjast síður. „Ef þú snýrð baki við ISIS,“ segir hann, „þá drepa þeir þig.“

Hann er nú í felum í Tyrklandi í þeirri von að uppljóstrarar komist ekki á snoðir um hvar hann er að finna. Hann segir að ef upp um hann kemst þá verði hann afhöfðaður. Svikurum er grimmlega refsað því samkvæmt hugmyndafræði Ríki íslam er litið á þá sem kafar, trúleysingja og ekki lengur múslíma. Það þýðir eitt - dauðarefsingu. 

Saga margra ungra manna

Ferðalag hans hófst fyrir þremur árum þegar hann gekk til liðs við uppreisnarhóp gegn forseta Sýrlands, Bashar Assad. Hann tók þátt í mótmælum gegn ríkisstjórninni í Deir Ezzor og var fljótlega handtekinn. Honum var haldið föngnum í ellefu mánuði þar sem hann sætti ítrekað pyntingum. Þessi lífsreynsla gerði hann að öfgamanni. Hann vildi berjast og gekki því til liðs við Frjálsa sýrlenska herinn (Free Syrian Army) í sínu heimahéraði.

Líkt og margir aðrir ungir skæruliðar færði hann sig um set og tók að berjast með harðlínuskæruliðum sem voru betur vopnaðir og fjármagnaðir. Hann gekk til liðs við al-Nusra, sem tengist al-Qaeda samtökunum en þaðan fór hann til ISIS (nú Ríki íslam). Samtökin ráða yfir miklum fjármunum og fékk hann greidd laun í hverjum mánuði. Alls fékk hann sem svarar til 600 Bandaríkjadala, 73 þúsund krónur, og hafði hann aldrei fengið jafn há laun á ævinni. 

„Ég sá fullt af skelfilegum hlutum sem þeir gerðu en ég var sannfærður um að þetta væri einhver innri skynvilla og að samtökin væru af hinu góða.“

Hann segir að í fyrstu hafi hann farið í þjálfunarbúðir í 40 daga en maður frá Sádí-Arabía stýrði þjálfuninni. Sá hafi verið svo sannfærandi að hann hefði ekki hikað við að fremja sjálfsvígsárás hefði honum verið sagt að gera það. 

Heilaþvo börn sem yfirgefa foreldra sína til þess að berjast

Þessi fyrrverandi liðsmaður Ríki íslam segir að helstu fórnarlömbin séu ungir karlmenn og börn sem auðvelt er til að heilaþvo. „Þeir heilaþvo þá og börnin eru reiðubúin til að yfirgefa foreldra sína og berjast fyrir ISIS,“ segir hann. 

En það sem gerði útslaðið var fjöldamorð sem hann var áhorfandi að í Deir Ezzor. Alls voru yfir 700 af sama ættbálki afhöfðaðir en með fjöldamorðunum sendi Ríki íslam skýr skilaboð til annarra ættbálka. 

„Við fundum lík kvenna, gamalmenna, barna,“ segir hann og bætir við að þeir sem kvörtuðu yfir því að þurfa að drepa konur og börn voru teknir af lífi af félögum sínum.

Ekki sér fyrir endan á átökunum í Sýrlandi og Írak en ljóst að þeim lýkur ekki á næstunni. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, viðurkenndi það fyrir nokkrum dögum að bandarísk yfirvöld hefðu sofið á verðinum og allt of seint gert sér grein fyrir uppgangi Ríki íslams. Nú hafa yfir fjörtíu ríki sameinast í baráttunni gegn samtökunum en á sama tíma heldur stríðið áfram á jörðu niðri þar sem hinn almenni borgari er því miður yfirleitt fórnarlambið.

Ekki er vitað hversu margir liðsmenn vígasveita íslamistanna eru í Sýrlandi og Írak. Bandaríska leyniþjónustan CIA telur að samtökin séu með 20.000 til 31.500 menn undir vopnum. Aðrir telja að þau séu með meira en 50.000 liðsmenn í Sýrlandi einu, þeirra á meðal allt að 20.000 frá öðrum löndum, svo sem arabaríkjum, Tétsníu og Evrópulöndum.

Eignir samtakanna eru metnar á um 250 milljarða króna og þau eru nú álitin auðugustu hryðjuverkasamtök heims. Samtökin reiddu sig í fyrstu á fjárhagslegan stuðning auðmanna í arabaríkjum en eru nú orðin sjálfum sér nóg um fjármagn. Þau hafa haft miklar tekjur af olíuvinnslu á svæðum sínum, sköttum, tollum, smygli, fjárkúgunum og mannránum til að krefjast lausnarfjár, að því er fram kom í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu sl. laugardag.

Liðsmenn Ríki íslam í Raqqa
Liðsmenn Ríki íslam í Raqqa AFP
AFP
Samtökin Ríki íslam hafa ráðið yfir Raqqa í meira en …
Samtökin Ríki íslam hafa ráðið yfir Raqqa í meira en ár. AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
Konur verða að hylja sig frá toppi til táar
Konur verða að hylja sig frá toppi til táar AFP
Helstu fórnarlömbin eru börn sem eru heilaþvegin og yfirgefa foreldra …
Helstu fórnarlömbin eru börn sem eru heilaþvegin og yfirgefa foreldra sína til þess að taka þátt í stríðinu AFP
Börn, gamalmenni - engum er eirt þegar kemur að aftökum
Börn, gamalmenni - engum er eirt þegar kemur að aftökum AFP
AFP
það er stöðugur straumur yfir landamærin til Tyrklands.
það er stöðugur straumur yfir landamærin til Tyrklands. AFP
AFP
STR
HO
Ríki íslam hefur stýrt Raqqa í meira en ár.
Ríki íslam hefur stýrt Raqqa í meira en ár. HO
HO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert