Barist gegn ISIS í Sýrlandi

Bandarísk F-22 Raptor orrustuþota, sem tók þátt í árás á …
Bandarísk F-22 Raptor orrustuþota, sem tók þátt í árás á ISIS, tekur eldsneyti. AFP

Banda­rísk­ar orr­ustuflug­vél­ar gerðu minnst fimm loft­árás­ir á víga­menn sam­taka ISIS, Rík­is íslam inn­an landa­mæra Sýr­lands í dag. Meðal skotmarka voru sveitir vígamanna sem staðsettar eru sunnan og suðaustan við bæinn Ain al-Arab, en samtökin hafa barist um yfirráð yfir bænum í rúmlega tvær vikur.

Fréttaveita AFP greinir frá því að átta öfgamenn hafi fallið í árásum Bandaríkjahers. Vopnaðar sveitir Kúrda urðu vitni að loftárásunum og segja þeir mikið sprengjuregn hafa átt sér stað þegar sveitir Bandaríkjahers gerðu þar árás.

Þrátt fyrir þetta héldu vígamenn ISIS áfram árásum sínum á bæinn. Er talið að þeir eigi nú um þrjá kílómetra eftir þar til þeir eru komnir inn fyrir bæjarmörkin.

Óttast er að sveitir Kúrda munu ekki ná að halda aftur af sókn ISIS, en hinir síðarnefndu notast m.a. við skriðdreka og önnur þungavopn í áhlaupi sínu. Þá eru þeir einnig mun fjölmennari en þeir Kúrdar sem á móti þeim berjast.

Talið er að flest þeirra vopna sem liðsmenn ISIS notast nú við í áhlaupinu séu komin úr vopnageymslum sem finna má í borginni Mósúl í Írak og á flugherstöðinni Tabqa í Sýrlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert