Fækka störfum um hundrað á ritstjórn New York Times

AFP

Tilkynnt var á miðvikudag að störfum yrði fækkað um hundrað á ritstjórn bandaríska dagblaðsins The New York Times til að bregðast við erfiðleikum á fjölmiðlamarkaði. Í frétt blaðsins var vitnað í tilkynningu til starfsmanna um niðurskurðinn: „Fækkun starfanna er nauðsynleg til að ná stjórn á útgjöldum og gera okkur fært að halda áfram að fjárfesta í stafrænni framtíð The New York Times, en við vitum að hún verður sársaukafull fyrir bæði einstaklingana, sem eiga í hlut, og starfsfélaga þeirra.“

Í tilkynningunni frá Arthur Sulzberger, útgefanda blaðsins, og Mark Thompson framkvæmdastjóra sagði einnig að smáforrit fyrir snjallsíma helgað efni á leiðarasíðum yrði tekið úr notkun vegna þess að áskrifendur væru of fáir.

Niðurskurðurinn nær til um 7,5% starfa á ritstjórninni þar sem vinna 1.330 manns. Að sögn blaðsins hafa störfin aldrei verið fleiri. Störfum hefur verið fjölgað á blaðinu undanfarið vegna nýjunga á vefsíðunni og í notkun myndskeiða.

Blaðamönnum verður gefinn kostur á starfslokasamningum. Takist ekki á fá nógu marga til þess verður gripið til uppsagna.

Dagblaðið hefur átt í vandræðum með að ná hagnaði á undanförnum árum. Reynt hefur verið að leggja áherslu á stafrænt efni eftir því sem áskrifendum hefur fækkað. Einnig hafa eignir utan kjarnastarfsemi verið seldar. Þar má nefna dagblaðið Boston Globe og vefsíður, sem ekki tengjast fréttaflutningi.

Hvað sem líður nýjum áherslum er samkeppnin hörð við nýja tegund fréttamiðla á netinu, sem reknir eru með minni tilkostnaði.

Dean Baquet ritstjóri sendi einnig tilkynningu til starfsliðs The New York Times þar sem hann kvaðst vilja nota þetta tækifæri til að taka „sumt af því sem við gerum til rækilegrar endurskloðunar - allt frá fjölda blaðhluta til upphæðunna sem fara í efni frá lausapennum“.

Mikið hefur gengið á hjá blaðinu síðan Jill Abramson var rekin úr ritstjórastóli í mái og Baquet tók við. Þegar hún var rekin voru miklar vangaveltur um að það hefði verið vegna þess að hún kvartaði undan því að hún fengi minna borgað en karlar, sem gegnt hefðu sömu stöðu. Blaðið neitar þessu.

Á síðasta ársfjórðungi tilkynnti útgáfufélag The New York Times að hagnaður hefði dregist saman. Samdráttur í auglýsingatekjum hefði vegið upp á móti fjölgun stafrænna áskrifta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert