Phelps tekinn fyrir ölvunarakstur

Michael Phelps vann þrjú gull á Kyrrahafsleikunum í síðasta mánuði.
Michael Phelps vann þrjú gull á Kyrrahafsleikunum í síðasta mánuði. AFP

Sundstjarnan Michael Phelps var handtekinn fyrr í dag af lögreglunni í Maryland fylki í Bandaríkjunum. Er Phelps sakaður um að hafa verið ölvaður undir stýri auk þess sem hann mun hafa ekið yfir hraðamörkum.

 Phelps er 29 ára gamall og á metfjölda ólympíuverðlauna en hann hann hefur stigið á pall á Ólympíuleikunum 22 sinnum og þar af hlaut hann tíu sinnum gullið. Samkvæmt lögreglu mun Phelps hafa verið á 135 km hraða þegar hann var stoppaður, á svæði þar sem hámarkshraði er 72 km.

Phelps var fljótur að viðurkenna brot sitt og í kvöld baðst hann afsökunnar á Twitter. Sagðist hann skilja alvarleika aðgerða sinna og taka fulla ábyrgð á þeim. „Ég veit þessi orð þýða ekki mikið en ég bið alla þá sem ég hef brugðist innilegrar afsökunnar,“ bætti sundkappinn við. 

Phelps endurvakti nýlega feril sinn eftir að hafa sest í helgan stein að lokum Ólympíuleikunum 2012. Hann hefur áður komist í kast við lögin vegna ölvunarakstur því fyrir tíu árum síðan fékk hann 18 mánuði skilorðsbundinn dóm og 250 dala fjársekt fyrir athæfið sem hann kallaði síðar „einangrað tilvik“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert